Lífið í Smáranum

Maður er bara alveg hættur að nenna að blogga, skil þetta ekki. Margt annað að gera reyndar þannig að það er bara af því góða held ég.

Brynja var að ljúka prófum með stæl eins og venjulega 4 x 9 og 3 x 8 klikkar aldrei þessi stelpa. Æfir stíft með Þórsurum núna enda tímabilið að byrja og þá er nú þörf á að vera í toppformi. Vildi að ég væri í 1/10 af því formi sem hún er;)

Ég bíð eftir því að komast í ristilspeglun, þoli afskaplega fátt í maga, nema bara helst þá vatn og léttar súpur, get ekki borðað hrátt grænmeti eða ávexti, né heldur grófmeti annað og ekki mjólkurvörur. Borða samt alltaf eitthvað af þessu þar sem annars væri ég dauð úr hungri ;) Borða mínar pillur og vona að ég komist fljótlega að, ætla annars að hafa samband á Húsavík og athuga hvernig staðan sé þar kannski auðveldara að komast þar að veit ekki. Rosalegur biðtími hér virðist vera. Held mér í vinnu með herkjum en sumir dagar eru verri en aðrir, líka bara að vita ekki afhverju þetta stafar það veldur mér óróa.

Katlan mín var að koma frá pabba sínum í dag hress og kát að vanda, vorum hér með handboltapartý í dag og bara gaman. Er voðalega dugleg í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Þær systur stefna á sundferð í vikunni og hún er á límingunum yfir því. Svo ætla þær Brynhildur Sól að fá að gera tilraun til að gista saman hér hjá mér um næstu helgi og það er verið að plana hvað á að borða og fleira;) 

Ragnhildur Sól fékk að gista hjá Móu sinni um helgina og höfðum við það bara verulega kósý, vorum temmilega latar og borðuðum temmilega mikið af nammi og svona ;)

Mikið að gera í vinnunni og maður er stundum bara feginn því maður fær þá vissu um að maður er ekki að missa vinnuna.

Nenni ekki að skrifa meira enda má maður ekki vera of kjaftaglaður svona eftir langa pásu

OFURliði kveður  


Neikvæð.is

Gleðilegt ár segir maður víst í svona fyrstu færslu ársins. Svo sem ekki gleðilegt hjá mér þar sem ég hef ekki getað mætt í vinnu einn einasta dag á þessu nýja ári. Maginn eða hvað sem að mér er er að ganga frá mér, og allt gengur svo hægt, verið að prófa þetta og prófa hitt en ekkert virkar. Ég er svo hrædd við svona þegar gengur illa að finna út hvað er. En á að hitta doksa á morgun og ætla svo að fara að vinna á miðvikudag verð bara að harka af mér eins og ég er búin að gera í marga mánuði þar á undan. Úff finnst svo ömurlegt allt eitthvað núna...

Held að árið 2011 verði ekkert sérstakt ár fyrir mig, spurning um gjaldþrot og fleira ef allt á að halda áfram að hækka, hvernig á maður að standa undir svona rugli. Ég verð döpur þegar ég hugsa til þessa að það er eiginlega verið að taka okkur af lífi hægt og rólega. Maður verður kvíðinn, strekktur og ómöglegur þegar maður hefur stöðugt áhyggjur af því hvernig maður eigi að hafa næstu viku af, hvort maður eigi fyrir mat og svona en svona eru öll lífsins gæði á Íslandi í dag.

Svo á að svifta mann þeirri gleði að horfa á HM í handbolta og það af fyrirtæki sem er í eigu þeirra sem komu okkur á hausinn, þeir ætla að hafa allt af manni meira að segja andlega skemmtun líka issss held þeir ættu að sjá sóma sinn í því að hafa þetta bara í opinni dagskrá, þó ég glöð vildi þá á ég ekki pening til að kaupa áskrift vil frekar kaupa mat eða bensín fyrir þann pening heldur en að fjárfesta í þessari glæpastöð...en handboltann vil ég sjá og ætla að reyna að sjá hann með stækkunargleri í tölvunni á lol.is

Brynja mín hamast við að læra undir próf og búin að vera mjög dugleg, er að fara í stærðfræði kl 13 í dag og ég efast ekki um að henni kemur til með að ganga vel hún er svo samviskusöm.

Katla mín kemur í dag og ég get ekki beðið því ég sakna hennar stjórnlaust þegar hún er hjá pabba sínum þó svo að henni líði ljómandi vel hjá honum, Rakel var að fara út í gær og Katla skildi ekki alveg hvað væri að gerast en grét litla skinnið þegar hún áttaði sig á því að hún kæmi ekki aftur út úr flugvélinni..það er erfitt að eiga systir svona langt í burtu enda Rakel í miklu uppáhaldi hjá henni.

Best að fara að finna mér einhverjar heilsuuppskriftir af einhverju til að borða en skiptir svo sem ekki máli hvað ég ét, býst við að gera eins og gamla fólkið fara bara á build up eða einhverja næringadrykki ekki að ég sé að hrynja niður úr hor hahahahah alls ekki en maður verður ferlega þreklaus þegar maður hefur ekki lyst eða réttara sagt þorir ekki að borða því maður veit að sstuttu eftir mat verður maður fárveikur í maganum;(

Ofurliði kveður lítill 


Fyrirtæki ársins;)

Gaman að fara í búð með bilaðan grip og labba svo út með glænýjan grip án þess að borga krónu og án þess að þurfa eitthvað að tuða. Heimilistæki hér á Akureyri eru alveg að gera sig, enda hef ég keypt flest sem ég hef þurft hjá þeim og alltaf bara góð þjónusta, kýs þá fyrirtæki ársins barasta;)

Tók að mér aukavakt um helgina, held stundum að ég sé ekki í lagi, ekki að nenna því en þetta er bara laugardagsmorgunn og eg fæ frí út á hann líka þannig að það verður barasta ljúft. Enda alltaf vöknuð yfirr allar aldir þannig að því ekki að græða aðeins á því í leiðinni;)

Finn ekki fyrir tilhlökkun til jólanna, samt finnst mér gaman að því að hafa öll þessi fallegu ljós og hlusta á jólalögin og svona, en þessi jólagjafakaup eru að gera mig vitlausa, maður kaupir smotterí fyrir milljón halló sko. En ég gef ekki dýrar gjafir þessi jól enda eiga jólin að vera til að njóta en ekki kafna í einhverri djöfulsins græðgi. Það er ekki magnið eða verðið heldur hugurinn á bak við gjöfina og hananú;)

Búin með peysuna á Brynju og er að leggja lokahöndina á hello kitty skokk á Kötluna mína á bara eftir að setja slaufur á andlitið á dýrinu og þá er skokkur klár.. ER svo að undirbúa mig að prjóna á hana Kápu en veit ekki alveg hvernig ég vil hafa hana á litinn, þetta er líka smá mikil vinna og ég er alls ekki viss um að ég kunni það en ég reyni allavega, vildi að ég gæti klárað hana fyrir jólin en sjáum til með það:)

Ætla að fara að hengja upp þvott alltaf eitthvað að gera sem mann langar bara alls ekki að gera skil það ekki

OFURliði kveður  


Jólin fara að koma úff

Letihelgi á enda runnin, ég var í 4ra daga helgarfríi og leyfði litla geninu að fá frí líka og erum við svo algjörlega búnar að vera letidýr svona að mestu, bara chillað og skotið í mataraðdrátt og í eina klippingu sem næstum gleymdist reyndar í allri letinni. Barnið komin í bað kl 15 í dag og kl 15.10 kveikti mamman á perunni að það væri klipping kl 15.30 og að sjálfsögðu voru við mættar á mínútunniLoL

Búin að klára peysukjólinn hennar Brynju á bara eftir að lykkja undir höndum og ganga frá endum, prjónaði svo einn skokk á Kötlu á bara eftir nokkrar umferðir af honum, klára hann kannski í kvöld ef ég verð í stuði. Bara gaman að hafa eitthvað í höndunum að gera.

Bakaði í gærmorgun Sörur sem voru svakalega furðulegar en kremið varð enn furðulegra þannig að líklega hef ég fundið upp nýjar kökur bara....góðar kökur án hveitis og gers. Búin að  baka það sem ég ætlaði að baka en fann reyndar eina sem mig langar að skella í á morgun kannski sé til hvað ég verð nennin eftir vinnu;) Stutt vinnuvika núna bara 4 dagar sem er sérdeilis gott bara.

Búin að kaupa 2 jólagjafir og ákveða fjórar en rest bara hef ég ekki hugmynd um hvað ég á að gefa, erfitt að gefa fólki sem í sjálfu sér vantar ekkert en finn út úr því þegar þar að kemur.

Fór í heimsókn með vinnunni til Nínu á fimmtudagskvöldið og var það alger snilld, ótrúlega hressandi að hitta þessar konur í vinnunni en enn meira gaman að hitta þær fyrir utan vinnu;) Pakkar gengur og brandarar flugu, hlegið og mikið og gott borðað... Þar fékk ég svo góða hugmynd af jólailmi að nú angar allt af kanil og negul hjá mér mmMMMMMmmmm

Best að fara og lykkja peysuna hennar Brynju minnar saman

OFURliði kveður hress 


Prjóni prjón og fleira

Þetta er nú alls ekki líkt mér blaðurskjóðunni að láta líða svona langt á milli færsla hjá mér, but shit happens.

Allir að tapa sér yfir kosningum í dag, ég tapaði mér ekkert, fór bara og kaus fimm einstaklinga sem mér fannst að ættu klárlega heima í þessu þingi og er sátt, þurfti ekkert að bíða og tók mig heila 5 mínútur að gera þettaLoL

Merkilegt hvað atburðir eiga það til að hrúgast allir á sama dag og merkilegt nokk þá vinn ég sjöttu hverja helgi og einmitt þessa helgi var bara allt að gerast hjá litla barninu mínu, föndur á leikskólanum, fyrstu tónleikarnir hennar og ég missti af þeim, gæti grátið. Maður á ekki að missa af tónleikum hjá börnunum sínum bara ALLS EKKI. Pabbi hennar fór og ég hélt að ég næði að klára vitjanir fyrir kl 11 en sama hvað ég remdist var ég ekki búin fyrr en rétt fyrir kl 12 þannig að ég missti af þeim. Er með hnút í hjartanu yfir þessu og finnst mér ég hafa svo klikkað sem foreldri en þetta skal aldrei koma fyrir aftur, frekar segi ég upp í vinnunni.

Er að fara aftur að vinna í kvöld og finnst það fínt bara. Elska allt þetta gamla fólk sem tekur manni yfirleitt opnum örmum og er svo indælt hver með sín vandamál, hvort sem það er gleymska, einmanaleiki eða alvarleg veikindi.

Jólin styttast og erum við mæðgur búnar að setja seríur upp um alla veggi og svo um mánaðarmótin er bara að drífa jólagjafir af og fíla svo desember eins og hægt er. Stelpurnar verða fjarri góðu gamni og ég að vinna en ég valdi það og þýðir ekkert að væla það. Verður bara ljúft að kíkja á veika fólkið mitt á þessum hátíðardögum;)

Brynja mín stendur sig eins og hetja í akstrinum og hendist um allt og klikkar ekki, búin að keyra til Grenivíkur í hundleiðinlegu veðri og gekk svo fínt, verða að fá að keyra við allar aðstæður þannig æfast þau best, varkár stelpan. Gengur líka vel í skólanum og fær endalausar fínar einkunnir sem maður er auðvitað alltaf í skýjunum yfir, enda kostar það líka mikinn lestur og lærdóm og hún ætlar að standa sig og gerir það. Ótrúlega heppin með þennan fallega ungling minn.

Katla mín fær hvert hólið á fætur öðru á Holtakoti, þær segja að hún sé svo athugul og fróðleiksfús verður líklega lítill prófessor. Má hvergi aumt sjá þessi elska þá finnur hún til í hjartanu eins og hún segir haha;)Elskar kisurnar sínar og breiðir teppi yfir þær, knúsar þær eftir helgarnar hjá pabba sínum og hvíslar að þeim "ohhh ég hef saknað ykkar" svo mikið krútt. Dugleg og góð stelpa. Var svolítið reið við mömmu sína um síðustu helgi því hún spurði mig hvort hún mætti eiga Sveinbjörn en það er lítill strákur Holtakoti, skildi ekkert í því að mamman skyldi neita...enda efst í huga hennar að fá lítinn bróður ekki systir bara bróður;)

Prjónaverkefni okkar systra gengur skafið og hefur safnast alveg hellingur handa mæðrastyrksnefnd sem er vel því þörfin er mikil og manni finnst napurt þegar maður heyrir fólk á besti aldri hvæsa að það sé engin fátækt á Akureyri...held að fólk ætti aðeins að kynna sér málin áður en það alhæfir svona vitleysu. Búin sjálf að prjóna tvenna sokka, tvenna vettlinga og 5 eyrnabönd sem er nokkuð gott bara. Er núna dottin í að hekla bjöllur en er alls ekki nógu góð í því en maður reynir eftir bestu getu;)

Best að hekla smávegis eða bara loka augunum;)

YFIRliði kveður  


Allt og ekkert;)

Fjögurra daga helgarfríi að ljúka og svei mér ef mig langar ekki í vinnuna aftur. Búið að vera töluvert álag undanfarið en fer vonandi batnandi nú ef ekki þá verður maður að skoða málið bara. Ekki bara að maður hafi verið skertur peningalega heldur líka er meira álag bæði andlega og líkamlega sem endar bara á einn veg og það er með auknum veikindum það hefur sýnt sig að það skilar sér einungis á þann veg.

Mási bró datt hér inn í gærkvöldi og stoppaði góða stund, alltaf gaman að spjalla við hann, þeir félagar hann og Eyþór voru búnir að vera að grandskoða fugla hér í nágrannasveitum og að sjálfsögðu að festa þá á filmu;) Fyndið einu sinni voru þeir báðir sjúkir í að skjóta fugla en nú hefur sá áhugi minnkað hjá þeim báðum og nú er myndavélin það eina að mestu sem þeir skjóta afLoL Sem er flott nema þá fær maður hvorki rjúpu né gæs DAMN.

Katlan mín búin að vera í fríi með mér þessa 4 daga og bara gaman að því. Fórum út á snjóþotu í gær og í dag og skemmtum okkur konunglega og hlógum mikið. Sérstaklega fannst henni gaman þegar mamman brá undir sig rassinum og dúndraðist af stað á þotu niður brekku, hélt að hún myndi hreinlega deyja úr hlátri, en það dó ekkert hjá mér nema þá kannski rassinnW00t hún er eitthvað ekki góð, en Andrea er farin frí þannig að það er ekki svo margt sem maður getur gert í einum grænum, ætla að sjá hvernig hún verður þangað til hún fer til pabba síns á miðvikudag en maður verður annars að fara með hana og láta taka strok aftur, kæmi mér ekki á óvart þó kokkarnir væru enn í fullu fjöri.

Brynjan mín fær prófið á fimmtudaginn og er ég pínu stressuð þar sem hún hefur aldrei keyrt í snjó en við ætlum að æfa aðeins á miðvikudaginn og svo fer hún bara varlega.

Heimsótti Sollu fermingasystir um helgina og þegar við hittumst þá er það alveg 3 tíma spjall næstum því og bara gaman, stelpurnar léku sér og við spjölluðum, alltaf gaman að því. Þeim semur líka svo vel stelpunum að það er bara gaman.

Ég er með endalausar pælingar um framtíðina, veit ekki hvar það endar en vonandi einhversstaðar, veit hvað mig langar að gera en það er svolítið erfitt að gera það þar sem ég er bara ekki alveg ein, og ég get bara ekki hlaupið í burtu. En kannski hægt að finna lausn á því.

Var spurð spurningar um helgina og mér til mikillar depurðar gat ég ekki svarað henni, yfirleitt verð ég ekki kjaftstopp en núna varð ég það og það kom mér verulega á óvart. En það er víst annarra að svara þessari spurningu......*röfl* enginn sem skilur hvað ég er að fara;)

Best að fara að sofa hjá litla barninu sem hóstar eins og enginn sé morgundagurinn

YFIRliði kveður pælandi 


Ef maður gæti bara breytt því sem búið er ;(

Komin niðurstaða vegna magaspeglunar og hún er að ég er með vélindabakflæði, slímhúðin orðin mjög viðkvæm greyið. Veit ekki hvað verður gert við þessu, á að forðast vissar matartegundir, má ekki drekka kaffi nema í mjög litlu magni, ekki borða súkkulaði, ofl.ofl. þetta er bara það sem mér finnst verst;) En líklega heyri ég betur um það hvað hægt sé að gera frá heimilislækni, meltingarsérfr. skildi bara eftir skilaboð í talhólfinu mínu!!! en hlýt að heyra meira, kyngingarörðugleikarnir stafa t.d. af þessu...en vonandi verður þetta bara í lagi.

Vildi stundum að ég gæti bakkað aftur um nokkur ár, og breytt vissum hlutum en því miður er það ekki hægt og þá er bara að sætta sig við það sem maður getur ekki breytt. En það getur verið erfitt dúddamía sérstaklega þegar maður er búinn að uppgötva hvað maður hefur gert rangt. En eins og ég segi svona er lífið bara og líklega er manni ætlað að læra eitthvað á þessu og vissulega hef ég lært á þessu en vildi samt að ég hefði ekki þurft þetta til.

Katla er búin með lyfjaskammtinn sinn og er mikið hressari en samt er eitthvað hjá henni sem truflar mig, en verð bara að vera spök og bíða og sjá. Andrea barnalæknir er farin í 4 mánaða frí þannig að ég krossa bara putta að hún sé orðin góð. Brynja er búin með sinn skammt og bara orðin góð líka þannig að þetta er allt í áttina.

Brynjan mín náði bílprófinu með glans eins og við var að búast, óheppin að það kom snjór kvöldið áður en hún tók prófið en hún brilleraði engu að síður gerði bara 3 klaufavillur eins og kennarinn hennar sagði, hefði aldrei verið felld með þessar villur svo smálegar voru þær;) Hún er frábær, má svo keyra á miðnætti 27 okt en getur farið í skólann á bílnum sínum á afmælisdaginnLoL Skrýtið hvað tíminn líður man svo þegar hún fæddist hvert smáatriði enda þægileg og góð fæðing, akkúrat andstæðan við það þegar ég eignaðist Kötluna mína. Bara gott að upplifa hvort tveggja:)

Við erum bara í leti hérna núna við mæðgur, með kerti og kósý, en þarf greinilega að fá einhvern til að skoða fyrir mig ofnana hér því mér finnst kalt. Finnst alveg fáránlegt þegar ofnar eru settir undir gluggakistur og hitinn skilar sér alls ekki nógu vel út í íbúðina, þegar og ef ég verð rík eða næ að halda þessari íbúð, þyrfti ég að láta breyta þessu;) En núna einbeitir maður sér að því að lifa bara ekkert auka umfram það.

Jólin á næsta leyti, við Katla skutumst aðeins niður í Rúmfó í gær og þar var komið hellingur af jóladóti,Katla missti sig alveg og vildi kaupa, kaupa, kaupa, en fékk bara jólablýanta og eitt kerti;) Úff fer ekki þarna í bráðina. Aðventan verða mín jól, ætla að njóta hennar í botn og vinna svo jólin. Næstu jól verða allt öðruvísi ójá;) Þá verð ég í fríi og báðar stelpurnar hjá mér ef ekkert breytist:)

Best að fara að horfa á tv með litla barninu og prjóna jólagjafir á litlu frænkurnar mínar

OFURliði kveður með smá hnút í mallanum 


Snjókorn falla

Var að detta inn af námskeiði sem var haldið á FSA um geðsjúkdóma og þjálfun geðsjúkra svo eitthvað sé nefnt af því sem rætt var um. Mjög spennandi allt sem geðinu viðkemur, en held að ef ég færi í háskólanám þá myndi ég nú frekar læra sjúkraþjálfun..spennandi fag. Vorum 25 vaskar kellingar;)

Miklar vangaveltur búnar að vera hjá mér, búin að kryfja mig til mergjar og það tók nú langan tíma, en það sem eitt sinn er farið kemur ekki aftur, allavega ekki sjálfgefið þannig er það bara. Maður þarf að læra af mistökunum og ég ætla að gera það, hef því tekið þá ákvörðun að gerast nunna, ekki það að ég er búin að vera nunna núna í nokkuð langan tíma haha;)

Katlan mín er hjá pabba sínum núna á meðan ég þvælist í námskeiðum, en svo er ég í fríi á föstudaginn og ætla að leyfa henni að vera það líka;) Knusumst og klessumst þegar ég verð búin að ná í hana til Eyþórs.

Brynjan mín ætlar að vera á króknum um jólin og Katla í Munkanum þannig að ég bað um að fá að vinna á aðfangadagskvöld og jóladagsmorgun, og var því snarlega tekið;) Dett svo einhversstaðar inn og úða í mig á milli vitjana ekki að það verði nú erfitt geri ég ráð fyrir. Annars breytir það mig engu, fer svo heim og opna pakkana mína þegar ég er búin að vinna það verður nú aldeilis gaman;) Hef svo sem gert það áður og ekkert það skemmtilegasta í heimi og verður ekki það auðveldasta en hugsa bara sem svo að næstu jól verða betri þá verða þær báðar hjá mér jibbí cola:)

Ætla að fá mér meira kakó mmmmmreyndar ekkert spes í maga en so mér verður þá bara illt

YFIRliði kveður  


"ja ég veit svo sem ekki hvað ég get gert" pirr

Einn daginn er ég að drepast úr jákvæðni en svo þess á milli er ég að drepast úr neikvæðni. Katla mín búin að vera ómögleg, búið að vera blæðing frá einhverjum stað neðantil hjá henni, kom svo í ljós eftir þvagprufu að það er ekki frá þvagrás. Látin hafa eitthvað krem til að bera á draslið þarna niðri til að sjá hvort þetta lagist ekki en ég er búin að nota það á hana og það var eiginlega ekki tekið mark á mér að ég hefði gert það. Núna er greyið ómögleg iðar algjörlega, búin að tékka á njálgi og það er ekki sýnilegt allavega, en eitthvað er að pirra hana þarna, hvarflaði ekki að þeim að taka strok eða eitthvað úr rassinum í ljósi þess að hún hefur fengið strepthokokka þar....leið eins og ég væri móðursjúk móðir að búa til veikindi á barnið mitt. Setti núna deyfikrem á rassinn hennar sem ég fékk síðast þegar hún fékk kokkana og líður henni ögn betur. Hef aldrei leitað til læknis með hana öðruvísi en það hafi eitthvað verið að, má líka alveg taka í reikninginn að það er stundum erfitt að fatta hvar börn eru að kvarta um eitthvað...guð ég er fúl. Ætla sko að arka upp á slysó á morgun og heimta að fá að hitta barnalækni, þessir heimiilislæknar gera bara eitthvað og segja svo bara "ja ég veit ekki hvað ég get gert" FOKK

En annars er lífið lalala svona, klikkað að gera í vinnunni þegar maður er í henni, eða mér finnst það allavega, er gersamlega sprungin þegar ég kem heim, en svona er það bara.

Fór í magaspeglun á þriðjudaginn sem gekk ljómandi vel var komin heim 1/2 eftir að ég fór uppeftir, afþakkaði kæruleysislyfið og þá gekk þetta hraðar fyrir sig. Hann tók 6-8 sýni úr maga og vélinda, en sá ekkert merkilegt svona við fyrstu sýn, heyri í honum í næstu viku. Á bara að halda áfram að taka út það sem mér finnst að sé að valda mér vanlíðan. Sem þýðir að ég er eiginlega bara ekki að borða neitt... þoli orðið afskaplega fátt en þetta tekur tíma ef það er Candida sveppurinn.

Annars er þetta bara svona upp og niður lífið hér í smáranum. Vorum svo heppnar mæðgur að Eyþór kom og færði okkur heljarinnar læri sem ég ætla að bjóða pabba og Hildi + dætrum að snæða með okkur.

Steinninn loksins kominn á leiðið hjá mömmu, var reyndar ekki alveg eins og ég hafði beðið um hann en hann er samt fallegur, plain og nettur;)

Best að fara að halla sér hjá Kötlu ef þessi nótt verður eins og sú síðasta þá er best að reyna að ná hverri mínútu sem hægt er

OFURliði kveður þreyttur á að vera álitinn móðursjúkur......... 


Fækkum þingmönnum um helming

Jæja loksins er komið að þessari blessuðu magaspeglun. Einu sinni hét ég því að fara aldrei í svona, en það er ekki að spyrja þegar maður verður lasinn þá þarf að gera ýmislegt. Kvíði óhemju fyrir, ekki beint að fara í magaspeglunina heldur því sem kemur út úr henni, vona að allt verði samt bara gott. Ekkert borða síðan á miðnætti í gær, en ég er farin að fá magaverki ef ég sleppi því að borða á 2 tíma fresti þannig að núna er maginn á mér algjörlega eins og sé logandi bál innan í honum.

Held að Hildur ætli að keyra mig, á eftir að koma í ljós, hugsa að ég gæti alveg keyrt heim en það kemur allt í ljós.

Í gærkvöldi sat ég og hlustaði á þingmennina okkar, og án gríns ég grenjaði bara. Þvílíkt leikhús þarna á alþingi, núna eru sjálfstæðismenn að tala um að það væri hægt að bjarga og bjarga en hver kom okkur í þetta voru það ekki akkúrat þeir. Sjá fólkið mótmæla þarna, ég grenjaði og ég skil fólk algjörlega. Það er að sjá fram á að missa allt sitt, við sem erum ein erum að sjá fram á að missa allt okkar, á að drulla algjörlega yfir fólk.......

Vil allt þetta fólk burt af alþingi og erlenda aðila setjast á þing, ég vil sjá þingmönnum fækkað um allavega helming, ef við miðum okkur við Norðmenn þá ættum við einungis að hafa 11 þingmenn miðað við landsstærð já takk en þeir eru 63, mætti spara. Er ekki hægt að sameina ráðuneyti í 3 og minnka rekstrarkostnað, eigum við endalaust að skera af hjá okkur en opinberar stofnanir að halda sínu skil það ekki

Farin að spegla mig

OFURliði kveður í hringiðu tilfinninganna. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband