Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
13.4.2009 | 22:04
Álfur á hól eða hvað...!!
Fann þessa skemmtilegu mynd af Dabba Odds þar sem honum er líkt við álf út úr hól, elsku kallinn hann er bara sætari þarna
Í takt við tímann að byrja í sjónvarpinu og ég er strax farin að ískra úr hlátri haha en ætla samt ekkert að horfa á hana, bara aðeins að gjóa á hana augum á meðan ég blaðra hér. Verð að fá útrás einhversstaðar ekki get ég talað. Mikið finn ég til með þeim sem eru mállausir dúddamía... Fer ekki í vinnu í fyrramálið enda gæti ég ekki gert mig skiljanlega við einn einasta mann...haha þetta er nú auma ástandið. En allir voða glaðir á heimilinu sýnist mér með þetta, loksins þögn:)
Katla litla stútfull af kvefi en nokkuð hress samt, ekki beint lasin en samt svona ekki langt í ýlið en ekki lasin, enda ætlar hún að kasta sér á Bubbakot á morgun og vonandi verður komið svar um leikskólapláss þegar hún kemur heim hæ, hó jibbí jei.
Endalaust sem fólk er að greinast með krabba í kringum mann, frændi minn einn úr Kelduhverfi var að greinast og það er frekar dapurt en lífið er bara svona. Agalegt fyrir pabba að þurfa að horfa á hvern félagann á fætur öðrum kveðja, 3 búnir að fara sl 3 ár allir úr krabba of mikið. Þetta er það sem gerir þennan aldur svo oft erfiðan fyrir aldraða, þeir sem hraustari eru fyrir þurfa að horfa á eftir hinum, getur verið andstyggilegt og eitthvað fyrirkvíðanlegt en svona gengur nú lífið bara og þetta er víst leið okkar allra.
Tökum upp léttara hjal, ég er enn ekki komin með bragðskynið en ég borðaði samt helling af súkkulaði í dag, engin nautn af því einu sinni maður er nottlega klikkaður, fékk svo bara í magann og varð ógeðslega óglatt sem er reyndar gott á mig. Maður á að borða til að njóta. Hef ekki borðað mikið síðustu daga enda gleðst maður þegar maður dettur á vigtina því yfir páskana eru farin 1,5 kg og geri aðrir betur, fékk ókeypis ristilskolunardæmi eins og Jónínu nema það kom af sjálfu sér, Bwahaha ég veit ég er smekkleg en það er nú það sem heldur mér gangandi á þessum síðustu og verstu.
Er með ýmis járn í eldinum núna (töff orðað) og gengur vonandi allt eftir um mánaðarmótin, auglýsi enn eftir fjársterkum aðila múhahaahaha sterkari en mér allavega en það gæti nú reyndar orðið erfitt svona á þessum síðustu og verstu.
Hvað getur maður sagt annað en "er það minn eða þinn sjóhattur, er það minn eða þinn sjóhattur" Djöflaeyjan var í gær og þvílíkt sem hún klikkar aldrei alltaf jafn góð
Ofursjúlli kveður "er þetta rassinn á þér eða er einhver með þér":)
12.4.2009 | 03:30
Alger þögn
Stundum er svo gott að vera svona einn vakandi, heyrist ekki múkk neinsstaðar nema í lyklaborðinu hjá mér núna. Vaknaði reyndar við einhvern gaur sem var með athyglissýki á háu stigi og gekk gaulandi EINN hérna niður Hamarsstíginn..en hann virtist sæll og glaður svo það skiptir meginmáli.
Lítið að gerast, get bara ekki sofið og ákvað því eins og venjulega að hringlast aðeins í tölvunnni, ætla nú samt að leggja mig aftur fljótlega. Sofnaði kl 21 í gærkvöldi og kannski ekkert skrýtið þó maður sé kominn upp. Hef ekki einu sinni nennt að prjóna eða hekla, ég sem var ákveðin í því að klára ermarnar á Kötlu fyrir páska en það gekk greinilega ekki eftir.
Mér líður engan veginn vel, andskotinn hafi það hvorki á sál né líkama, vildi ég gæti spólað nokkur ár fram í tímann eða aftur í tímann og yfir á svona vellíðunartímabil. Finnst þetta leiðindatímabil í mínu lífi alveg að verða gott sko, en sagt er að maður skapi sér svona sjálfur og auðvitað er það þannig en sumt getur maður ekki komið í veg fyrir né stýrt það er bara þannig.
Það er ekki mikið ónæði af mér hér á heimilinu þar sem það heyrist ekkert í mér ekki múkk, ég las heila bók fyrir Kötlu í gærkvöldi með því að hvísla hana, og það var svo fyndið að hún hvíslaði alltaf á móti, s..s. fór að tala í sama gírnum haha snillingur. Ég vona að enginn verði fúll ef ég ekki hringi eða svara ekki hringingum í dag því ég bara því miður ég get ekki talað þannig er það bara.
Kem ekki einu sinni til með að hafa ánægju af páskaegginu mínu þar sem bragðskynið er ekkert heldur þannig að ég ætla ekki að opna mitt fyrr en það kemur:)
Gleðilega páska alllir nær og fjær og þið örfáu hræður sem lesið þetta
Ofursjúlli kveðjur þegjandi
11.4.2009 | 17:29
Drulla og æla, já lífið er ljúft
Þvílíkur viðbjóður þessi pest maður minn lifandi já eða dauður. Ég var virkilega farin að óska þess í morgun að ég fengi að deyja, díses. Náttúrulega hæsi dauðans og það heyrist ekki orð þegar ég tala, hiti, beinverkir, hálsbólga, og bara öll flóran, sem var nú bara alveg nóg að mínu mati, en nei um kl 06.30 byrjaði upp og niður pest, þvílíkur viðbjóður, fyrsta sem ég sá var fata sem Katla á og ég nottlega þreif hana og gubbaði í hana og svipurinn sem kom á litla genið og svo kom bara OJ. Greyið hún var svo góð við mömmu sína strauk hárið og var svo góð:) Hélt ég myndi missa meðvitund af slappleika á tímabili en það slapp nú til og er þetta gengið yfir. Búin á sál og líkama er tilfinning sem ég veit nú hvernig er pjúff.
Vona að íbúðin í Smárahlíð fari að seljast svo ég geti farið að hugsa mér til hreyfings, búin að finna íbúð út í þorpi sem ég er heit fyrir, gengur ekki upp að halda áfram að búa svona undir sama þaki.
Spurning um að reyna að spila í lottó:) nema einhverjir eigi nokkrar millur á lausu sem hann hefur ekkert að gera við þá hef ég helling að gera við þær:)
Kalt í dag, fór aðeins eftir hádegið í Bónus og svo til Hillus en stoppaði stutt þar sem það er mjög stutt í ergelsið hjá minni litlu, enda stútfull af kvefi, en dröslaðist reyndar út með pabba sínum núna, bara gott af því held ég.
Best að hætta þessu og fara að halda áfram að liggja það er mjög næst
Ofursjúlli kveður ofurskeindur
9.4.2009 | 18:47
Hvenær tekur það enda
Ég er ekki eins hress og ég sagði í morgun, ég er bara hundlasin með beinverki, hálsbólgu (veðja á kokka), hita og gríðarlegt hormagn sem virðist annars vegar fast ofaní lungum og hinsvegar upp í haus DAMN. Var sprautuð við flensunni svo ég geri nú ekki ráð fyrir að þetta sé hún en líklega hefur einhver önnur pest vantað girnilegan (minn er það mjög allavega í pestaraugum) líkama og því komið sér fyrir. Nei nú segi ég STOPP.
Fórum samt snemma út í morgun við mæðgur og renndum í bakarí og vöktum svo mæðgur í Einholti með matarglaðningi. Síðan var farið á rúntinn og bærinn skoðaður og endað á því að fara í Keiluhöllina þar sem ís var snæddur og tekinn einn þythokkíleikur sem ég auðvitað vann enda andstæðingurinn 5 ára og skyldi ekkert í látunum í þessari kellingu Hafnaði því að spila annan leik við þennan geðsjúkling..skil ekkert í þessu. Vorum komnar heim um kl 13 og þá var litla genið orðið ofsalega þreytt og steinsofnaði eiginlega strax og svaf í 2 tíma, jibbí þýðir að það verður stuð frameftir kvöldi.
Skaust aðeins í Bónus áðan og gat á engan hátt tjáð mig á kassanum, afgreiðsludömunni ábyggilega fundist ég afspyrnu dónalega að bjóða ekki góðan dag, ég gerði það það heyrðist bara ekki, reyndi að brosa í staðinn en úr varð held ég hin agalegasta gretta:) En fór svo upp í Hlíðarfjall að sækja Brynju og vinkonu hennar en þær voru búnar að vera á bretti í ca 5 tíma og fóru svo eiginlega beint í sund, dugnaður ójá.
Katla hangir núna með jólasveinahúfu á hausnum og handklæði ofaná sér í sófanum og horfir á DVD á meðan mamman bíður eftir að brauðið sem hún henti í ofninn bakist, já konur þurfa að sinna heimilisstörfunum þó svo að veikindi hrjái þær, hefur nú aldrei klikkað. Hlakkaði svo til í morgun að fá að liggja og horfa upp í loftið en nei einhverra hluta vegna klikkaði það..en svona er lífið og það er jú bara þannig.
Best að fara að athuga með brauðið, kannski er það að verða komið út úr ofninum
Ofursjúlli kveður algjörlega mállaus
9.4.2009 | 06:28
Páskafrí
Páskafrí dottið í hús, bara gaman að því. Varð samt ekkert mjög hissa í fyrrinótt þegar ég vaknaði með hálsbólgu og beinverki, skeður alltaf ef skrokkurinn veit að frí er framundan. Er samt skárri í dag, bara með hálsbólgu og kvef Katla færði sínum dagpabba páskaeggjakörfu í gær og kvaddi vel og vandlega ekkert nema montið enda komin í frí fram á þriðjudag.
Fallegt veður úti núna, algert logn og blíða bara, verð vonandi í stuði til að vera eitthvað úti í dag, fáum okkur kannski göngu í kerrunni ég og litla genið, stóra genið er að fara í fjallið en hún var þar eiginlega í allan gærdag á bretti, enda veðrið til að vera þar. Komið mikið af ferðafólki í bæinn svona því sem næst eingöngu til að fara á skíði:)
Fæ vonandi bréf eftir páska um leikskólaúthlutun, bréfin voru send út í fyrradag en hef samt ekkert fengið doldið duló. En efast ekki um að hún hefur fengið leikskóla bara spurning um hvaða, langar mest í einn sem er úti í þorpi því ég ætla mér að reyna að kaupa mé á því svæði og því væri eiginlega best að hún gæti verið á leikskóla sem er sem næst hennar heimili og þeim skóla sem hún kæmi til með að fara í. Jájá skipulagið allt á fullu þessa dagana:)
Vona að maður geti farið að framkvæma alla þá hluti sem eru að hringla í hausnum á mér en ekki bara að hugsa um þá, þetta ástand í þjóðfélaginu er bara ekki fyndið lengur og hefur reyndar aldrei verið en mér finnst bara eins og það sé ekkert verið að gera allavega ekki okkur þessum vesalingum til hjálpar.
Annars er lífið bara nokkuð gott, stelpurnar sofa á sínu græna, Katla fer að vakna líklega allavega miðað við það sem hún er vön venjulega, annars var ég alveg handónýt um þarsíðustu helgi þegar ég vaknaði og kl var 09, ég varð svo rugluð leit á klukkuna og ætlaði bara ekki að trúa því að barnið hefði sofið svona lengi en jújú, merkilegt haha ég var lengi að ná mér.
Ætlum að borða saman á föstudaginn langa og páskadag stórfjölskyldan haha s.s. við, Hildur og dætur og pabbi, hangikjet á f-langa og rolluskjátu á páskadag, hún er alltaf best rollan. Pabbi gaf stelpunum sínum öllum páskaegg og ég ákvað að gefa ekki Kötlu annað en keypti handa henni Madagaskar 2 og hún er svo fyndin, góndi á hana í gær með Kötlu og hún er svo fyndin á köflum. Brynja fékk aftur á móti páskaegg og svo sendi ég Rakel eitt til Sverige..alltaf stemmari í því að fá páskaegg.
ER í svo raus um allt og ekki neitt skapi en ætla núna að fara að flakka aðeins á netinu
Ofursjúlli kveður í miklum pælingum
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2009 | 23:12
Bara búin að gleyma
Að ég er víst með bloggsíðu:) Bara steinþegi þessa dagana hvað er í gangi Búið að vera brjálað að gera í hannyrðunum síðustu daga er orðin alger prjónikerling og alvöru meira að segja líka, því þessar alvöru eru alltaf með mörg stykki í gangi og ég líka sko. Er að gera rúmteppi 90x180 og svo er ég líka að prjóna ermar á Kötlu seisei sú gamla algerlega að tapa sér
En gaman að þessu bara.
Brynja er komin í páskafrí en lét sig samt hafa það fyrsta frídaginn að vakna kl 08 og fara og keppa í fótbolta með 2. flokki kom svo heim um kl 13 dugleg stelpa. Svo núna er hún í afmæli upp í Giljahverfi rosastuð.
Katla talar nonstop og alltaf eitthvað nýtt, t.d. í morgun þegar við komum á Bubbakot bauð hún hátt og skýrt góðan daginn haha bara svona fullorðins. Grípur allt sem sagt er þannig að það er eins gott að passa sig. Fórum til Hillu í dag og þar léku frænkur sér og voru með þykjustu kaffiboð í næstum klukkutíma. Svo fór nú að snjóa hérna frekar en ekki, ég sem hélt að það væri "næstum" komið sumar, svona getur maður verið vitlaus vitandi það að við búum á landi sem heitir Ísland, og merkilegt sem maður verður alltaf hissa....
Nenni ekki að skrifa meira ætla að fara að sofa agalega þreytt, þrátt fyrir að hafa sofnað kl 21 í gærkvöldi og því sem næst sofið til morgun ef morgunn er byrjaður kl 06
Ofursjúlli kveður handóður
3.4.2009 | 07:26
Apríl hvar endar þetta....líklega í maí
Steingleymdi þessum annars skemmtilega platdegi 1. apríl. Hefði alveg getað látið nokkra hlaupa:) Er þessi siður kannski að detta upp fyrir sig, börnin muna eftir þessu kannski, svei mér ef maður er ekki að eldast.
Árshátíð hjá unglingnum í gær, var kynnir á sýningum í tengslum við hana bæði fimmtudag og föstudag. Var ósköp fín og falleg þegar hún fór í gær, kom heim að vera 00.30, mamman vildi ekki fara að sofa ef ske kynni að þyrfti að sækja hana, en vinur henni keyrði henni heim. Púff man hvað það fór í taugarnar á mér að mamma vakti svona eftir mér (var reyndar með unglingaveikina ofan við hámark) en ég skil hennar hlið núna, enn eitt merki þess að ég sé að eldast, þroskast er flottara orð
Fór með hana til Ragnheiðar Hansd út af kjálkanum og er stelpan með yfiropnun á háu stigi, s.s. þessi ættarliðleiki í liðum. Komin tognun og bólga í kringum liðþófann. Kenndi henni æfingar og ætlar að sjá til hvað það gerir, nú annars verður hún að fá góm til að sofa með. Kannast sjálf við þetta vandamál, var með svona góm út af sama vandamáli, og ég vaknaði alltaf án gómsins því ég hrækti honum út á gólf, gerði s.s. ekkert fyrir mig, enda varð maður alveg afspyrnu andfúll af því að hafa þetta upp í sér
Bakaði um 60 pönnsur í fyrradag og sendi helminginn upp í skóla á miðvikudag með sykri inni í og helminginn í gær með rjóma inni. Held ég komi ekki til með að baka pönnsur á næstunni dúddamía.
Er ofsadugleg að eigin mati, er að prjóna ermar á Kötlu, gott til að hafa yfir stuttermaboli og kjóla í sumar, búið að valda mér þvílíkum hausverk hvernig ég eigi að gera þetta en svo bara gengur þetta svona skafið, eru svona rauðbleikar einhvernveginn:) Góð viðbót við teppið sem ég er búin með 1/100 af:)
Ætla að fara að koma mér í vinnuna, við litla genið vorum komnar á fætur kl 06.00 og erum alveg eitilsprækar, ég er svo að vinna um helgina og ætlar Brynja að passa á laugardag en held að pabbi hennar verði í fríi á sunnudag nú annars reddar Móan hennar henni.
Segi þetta gott í bili
Ofursjúlli kveður pínu þreytt
30.3.2009 | 20:33
Brjálað veður
Var að lesa á mbl.is að það sé brjálað veður á öllu landinu eiginlega, mikið er gott að búa á Akureyri, bara blíðan hér og búið að vera í allan dag. Ekkert að veðri alla vega ekki hér á brekkunni.
Annars er fínt að frétta, við Katla skutluðum Brynju á æfingu og fórum svo og vorum í kaffi og Katla í mat hjá Hillu, Brynhildur og Katla eru orðnar svo góðar að leika sér saman að það er bara snilld, Brynhildur er sko STÓRA frænkan í sambandinu og finnst Katla vera svona littla baddnið Síðan sóttum við Brynju aftur og ákváðum að sækja okkur eina litla pizzalufsu í leiðinni. Var reyndar ekki borðað mikið af henni. Katla er núna að horfa pínu á stubbana og svo er það bara bælið hjá henni fljótlega.
Ég er komin með 19 búta í teppinu sem ég er að hekla þannig að mér skilst að þá eigi ég BARA eftir að hekla 180 búta ca haha ótrúlegt. En mjög gaman að grípa í þetta, ætla að fara á morgun og kaupa mér garn og prjóna mér ermar úr Nora garni sem á víst að koma nokkuð vel út...gott að hafa það með svona, verður svolítið leiðigjarnt að hekla alltaf eins. Ótrúlega dugleg núna. Er svo búin að panta mér snið og ætla að sauma mér svokallaðan egg kjól jájá allt að gerast.
Byrjaði að hreyfa mig í gær, fór í góðan göngutúr og boxaði aðeins og gerði styrktaræfingar, svo í dag hljóp ég tæpa 3 km og boxaði og gerði styrktaræfingar jájá nú skal bumbunni sagt stríð á hendur, skyldi einhver hafa heyrt þetta áður hjá mér
Best að fara að bursta tennurnar í barninu, greinilega komin með nóg af stubbunum og farin að geispa hérna.
Ofursjúlli kveður í lærdómshugleiðingum
28.3.2009 | 00:00
Hvað er hamingja
Oft pælt í þessu, hvað er hamingja. Í mínum huga er hamingja að vera ástfangin, eiga tíma með fjölskyldunni og fleira í þessum dúr. Það er engin skilgreining til hvað hamingju varðar sem er kannski ekkert skrýtið þar sem eflaust upplifir fólk hamingju mjög ólíkt I am deep tonight enda get ég ekki sofið ekki enn allavega. Litla genið hrýtur hérna hjá mér, en ég er með hausverk og illt í hálsinum og augunum, ætti s.s. að vera sofandi bara.
Vinnan gekk eins og alltaf alveg brill í dag. Fékk ekki þá aukningu sem ég hafði vonast eftir en líklega kemur hún inn í haust DAMN. En ég s.s. held þá áfram að vera í Víðilundi og sinna fólkinu í blokkunum þar sem er mjög fínt. Fer í sumarfrí 17 júlí -20 ágúst eitthvað svoleiðis og er það hrein og tær snilld. Langar að fara til útlanda en geymi það til næsta sumar, hef efni á því vonandi þá yeah right:)
Brynja búin að vera hundlasin síðan á mánudag, með háan hita, hálsbólgu og ljótan hósta, líklega flensan og er hundlasin enn með hósta og hálsbólgu, held hún sé orðin hitalaus en það er þá bara fyrsti hitalausi dagurinn í dag. Ætlar að fara að vinna á Goðamóti í fyrramálið og verður gott fyrir hana að komast aðeins út efast ekki um það.
Katla fór með síðbúna afmælisköku á Bubbakot í dag með smartís og læti:) Fekk aðra afmælisgjöf frá Önnu og Svenna, voða sæta peysu:)
Ætla að fara að sofa er ótrúlega þreytt en get eflaust ekki sofnað.
Ofursjúlli kveður
25.3.2009 | 18:04
Einn alveg brillíant góður á miðvikudegi:)
Ég horfði gagnrýnum augum á konuna, sem ég hef verið giftur í 30 ár og sagði:
Heyrðu elskan - fyrir 30 árum áttum við ódýra íbúð, ódýran bíl, við sváfum
á sófanum í stofunni, horfðum á 10 tommu svart/hvítt sjónvarp og á hverju
kvöldi iðkaði ég bólfarir með viljugri 25 ára stelpu.
Núna á ég 80 milljóna hús, 15 milljóna bíl, rúm á stærð við skeiðvöll og
50 tommu flatskjá - en þarf að sætta mig við það á hverju kvöldi, að fara í bólið
með þreyttri 55 ára konu. Ég fæ ekki séð að þú hafir haldið í við þróunina hér !
Ég verð að játa að ég á skynsama konu : Hún leit snöggvast á mig og sagði um leið:
Ekki vandamálið : Drífðu þig bara út og finndu þér 25 ára viljuga stelpu !
Ég sé um að þú fáir hitt aftur: Ódýra íbúð, bíldruslu og ódýrt svart/hvítt sjónvarp !
- eftir þessi 30 ár, veistu að ég meina það sem ég segi.
Er konan mín ekki frábær - Grái fiðringurinn hvarf á einu andartaki !!!