Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
27.7.2010 | 17:58
Snarruglaður sjúlli í dag svei mér:)
Fyrsti dagurinn í marga mánuði sem ég er í HEILAN dag ekki með sviða í maganum og hananú, hætt að taka þessar vita vonlausu magapillur og nærist nú á öllu nema hvítum sykri, hvítu hveiti og sykri HALLELÚJA:) En ég var auðvitað ekki lengi að finna út hvernig maður býr til hollt nammi sem er alveg dísætt og fínt haha maður kann þetta;) Meira að segja kom lítil 6 ára frænka mín í heimsókn áðan og alveg hreint slefaði yfir þessari hollustu í Móunni sinni og bað um uppskriftina því svona skyldi hún nú láta mömmu sína búa til og fór með bragðprufu til að leyfa liðinu að prófa þetta sætmeti;)
Finn mér allt til að gera annað en að fara að hlaupa, búin að ætla að gera það síðan í hádeginu en bara nenni ekki, en er á leiðinni, byrjuð undirbúningi, búin að setja vatn á flösku og taka af mér úrið það er nú nokkuð.
Er með nokkuð mikla verki í rassi eftir átök gærdagsins, lyfti kannski heldur of þungu allavega er eins og heygaffall sé fastur í báðum lærum og rassi haha kann mér ekki hóf þegar ég fer af stað. Enda þegar ég steig af Hafliða í gær þá er ég ekki að grínast ég nötraði algjörlega eins og hrísla, var mest hissa á því að fæturnir báru mig það sem eftir lifði dagsins.
Pantaði mér klippingu í gær á hárgreiðslustofu hér í bæ, ekki minni gömlu þar sem allt var upppantað þangað til ég veit ekki hvenær. Ég lít ekki nógu vel út þannig að ég varð að redda þessu í einum hvínandi grænum, kom gaur í símann og kallaði mig elskuna sína í öðru hverju orði, líklega er ég orðin gömul þar sem mér líkaði þetta bara engan veginn en ég fékk klippinguna þrátt fyrir þetta. Fer meira að segja líka í plokk og lit þannig að ég verð algjörlega til í allt um VERSLÓ er það ekki málið eða hvað;) Ekki það að ég sé að fara að gera neitt margt og merkilegt nema bara chilla í bænum með litla barnið en maður verður nú að státa því sem maður hefur þrátt fyrir það, aldrei að vita hver er á ferli kannski forríkur kall á miðjum aldri sem rekur augun í þessa líka hottie gellu með barn í kerru ;) Bwahahhahah skyldi ég hafi borðað lyfin í vinnunni tja maður spyr sig;)
Líka kominn tími á að fá sér nýtt tattoo og ætla ég að láta verða af því eftir versló eða um versló eftir því hvort gaurinn verður heima og það sem meira er verður edrú. Er eiginlega búin að ákveða hvað ég ætla að fá mér, hugsa að það verði blómið Lilja á ökklann og eitthvað svona dúllerí í kring;) Er með rós á upphandlegg þannig að ég enda bara eins og frumskógur líklega fyrir rest;)
Hætt að bulla og farin að rönna
OFURsjúlli kveður á þessum litlu bleiku
26.7.2010 | 07:17
Þrútin og hroðaleg en sæt engu að síður;)
Vikurnar hendast áfram bara eins og venjulega;) Sumarið alveg að verða búið eða þannig, fallegt veður upp á morguninn, fylltist reyndar allt af þoku hérna en það lagast nú þegar líður á morguninn.
Fékk taugaáfall í gærmorgun þegar var hringt í mig og ég spurð afhverju ég hefði ekki komið í vinnu á laugardagskvöldið eins og ég hefði átt að gera. Pældi ekki í því einu sinni að það gæti verið að ég ætti að vera að vinna, sá bara að ég átti að vinna fyrstu helginaí september en ekkert fyrr. Þannig að ég drullaðist í vinnuna í gærkvöldi;) Leiðinlegt að lenda í svona, bara eitt af því versta.
Er mikið betri í maganum í dag heldur en á laugardag, borða hafragraut með fjallagrösum alltaf á morgnana, enda fjallagrösin sögð hafa græðandi áhrif á slímhúð meltingarvegar, og ef ég hef greint mig rétt sem ég er eiginlega alveg viss um þá eru þau málið. Allavega þá hef ég alltaf verið eins og ég sé komin nokkra mánuði á leið, en eftir að ég tók út allt þetta hvíta og gerið þá allt í einu er ég bara að verða slimm já eða svona næstum því og ekki alveg eins mikil brunatilfinning í maganum. Núna er bara að vera duglegur í þessu og þetta er reyndar ekkert mál ef maður bakar bara sjálfur og pælir aðeins;) Bjó mér meira að segja til nammi úr kókos, döðlum, kakói og agave sírópi og það er bara gott, langar svo oft í einn bita á eftir matnum;) Annars hefur sykurlöngun ekki gert vart við sig og gerir kannski ekki á næstunni miðað við líðanina á laugardag úff.
Þarf að þrífa sameignina í dag þegar ég kem heim, ætllaði að gera það í gær en þurfti að vinna;) Katla fór með mér í vinnuna en fór svo til pabba síns í hans vinnu alger dúlla þetta barn okkar. Svo meðfærileg eitthvað og góð, sakna hennar voða mikið enda svaf ég ekki nema 4 tíma í nótt úff, verð farin að sofa sæmilega á fimmtudaginn en hún kemur heim á föstudag haha.
Best að fara að taka sig til í vinnuna
OFurliði kveður slim
24.7.2010 | 20:25
Mærudagar og allt að gerast
Stefndi á að fara á Mærudaga þetta árið en ætla að láta það bíða í eitt ár enn. Katla kom heim í gær seinnipartinn og fer aftur á sunnudag þannig að ég vildi bara eyða helginni í rólegheitum hér heima með henni, enda eins gott því hún fór í svo mikið og skemmtileg ferðalag með pabba sínum að hún er enn þreytt sýnist mér, vill bara kúra og slappa af, nennir ekki í einu sinni í göngutúr sem er mjög óvenjulegt;)
Ég er líka búin að vera óvenju slæm í maganum þrátt fyrir að vera búin að vera í 6 vikur á Pariet og á enn eftir 5 vikur, það er bara ekkert að gera. Þannig að ég fór að pæla og tók eftir því að ef ég borðaði nammi fékk ég í magann, ég fékk í magann ef ég borðaði pasta, og ég fékk í magann þegar ég borðaði gerbollurnar sem ég baka svo oft. Þannig að núna er ég viss um að ég er með gersveppaóþol og er því að taka út hjá mér allan hvítan sykur, allt hvítt hveiti og allt ger. En svo datt ég í nammi í gærkvöldi og dagurinn í dag er búinn að vera helvíti. En fékk mér áðan helling af fjallagrösum og ég er ekki ögn frá því að ég sé skárri. Núna ætla ég bara að baka allt sjálf og hananú. Vissuði að það er ger í kaffi...ekki hafði ég hugmynd um það en ég má drekka 2 bolla á dag án þess að það eigi að valda nokkrum usla...úff Hlakka samt til að fara í magaspeglun í byrjun sept svona til að fá úr þessu skorið hvað er í gangi. Vona bara að ég verði orðin góð;)
Brynja og Telma fóru á bílnum hennar Brynju á mærudaga í gærkvöldi og komu aftur í bæinn í dag svo Brynja gæti unnið og rétt duttu hér inn til að ná sér í nýjan fatnað og svo var brunað austur aftur, bara gaman að þessu.
Ég ætla að fara að svæfa hana Kötlu mína sem rétt heldur augunum hérna opnum við hliðina á mér greyið litla.
Ofurliði kveður úldinn
21.7.2010 | 12:15
Ömmuást er góð ást;)
í dag hefði elsku mamman mín orðið 73 ára. Það eru 2 ár síðan hún dó og sorgin breyst í söknuð en það eru tveir dagar sem fylla mig alltaf sorg og það er dánardægrið hennar og afmælisdagurinn, þetta kemur til með að breytast þegar frá líður en svona er þetta bara. Ætla að fara upp í kirkjugarð í kvöld með kerti og blóm og smella á leiðið hjá henni svona í tilefni þessa dags og margra annarra daga;)
Fann svo fallegt kvæði eftir Jóhannes úr Kötlum og læt það fylgja hér með og heitir:
Ömmuljóð
Lítill drengur lófa strýkur
létt um vota móðurkinn,
-augun spyrja eins og myrkvuð
ótta og grun í fyrsta sinn:
Hvar er amma,hvar er amma,
hún sem gaf mér brosið sitt
yndislega og alltaf skildi
ófullkomna hjalið mitt?
Lítill sveinn á leyndardómum
lífs og dauða kann ei skil:
hann vill bara eins og áður
ömmu sinnar komast til,
hann vill fá að hjúfra sig að
hennar brjósti sætt og rótt.
Amma er dáin- amma finnur
augasteininn sinn í nótt.
Lítill drengur leggst á koddann
- lokar sinni þreyttu brá,
uns í draumi er hann staddur
ömmu sinni góðu hjá.
Amma brosir- amma kyssir
undurblítt á kollinn hans.
Breiðist ást af öðrum heimi
yfir beð hins litla manns.
Ofursjúlli kveður
19.7.2010 | 18:06
Ofvirk eða bara virk...;)
Dásamleg bók sem ég var að klára að lesa og heitir "Góða nótt yndið mitt", ég lagði hana ekki frá mér, enda held ég að Kötlu hafi ekki fundist ég neitt skemmtileg allavega gerði hún heiðarlega tilraun til að fela bókina í dúkkuvagninum sínum Er reyndar mjög sorgleg og ég endaði á því að gráta heil ósköp á lokasprettinum, mæli klárlega með henni.
Katla hjá pabba sínum og Brynja að keppa fyrir sunnan þannig að ég er ALEIN, búin að gera allt sem mér dettur í hug, þvo þvott, laga eitt ljós, ryksuga, versla og er núna að baka þrjú brauð og ein skúffukaka sem býður þess að detta inn í ofninn. Jahér og er meira að segja búin að hlaupa ca 5 km og spurningin er bara hvað á ég að gera næst..hmmm er að spá í að fara með bílinn hennar Brynju niður á Max1 og skilja hann þar eftir og láta þá skipta um olíu á morgun, fæ mér svo kannski í leiðinni góðan göngutúr þá verð ég kannski þreytt í kvöld. Svaf verulega illa sl. nótt er alltaf þannig fyrstu nóttina sem Katla er að heiman merkilegt.
Gott að vera komin á fullt ról í vinnunni, var meira að segja að taka að mér aukavinnu eina helgi, held ég verði rík af því en það er bara rugl það fer allt í 40% skatt og þá er maður að fá lítið fyrir sinn snúð en ég er allavega að gera eitthvað á meðan. Vildi að það dytti inn einhverjar aukakvöldvaktir núna þessa viku og næstu sem ég gæti tekið þar sem Katlan er hjá pabba sínum en það er frekar ólíklegt finnst mér;)
Best að fara að kanna hvernig brauðin mín þrjú hafa það
Adios
OFURliði kveður eldsprækur
11.7.2010 | 13:38
Gefum þeim sem okkur hafa allt kennt tíma....
Átti þvílíka gæðastund með honum pabba áðan, sátum hér í rúman klukkutíma og spjölluðum svo margt, margt var hann að segja mér sem ég ekki vissi, sumt sem ég vissi, og margt fleira. Ræddum lífið og dauðann eða m.ö.o allt á milli himins og jarðar. Þetta eru góðar stundir en gefast allt of sjaldan, það er svo gaman að heyra hann tala um hluti sem hann hafði svo mikla ástríðu fyrir og eins bara um mömmu og þeirra líf saman, ættingja sem ég vissi varla að ég ætti æi bara allt.
Maður á að njóta þessa og gefa fullorðnu fólki tækifæri á að eiga svona gæðastundir, því eldra fólki finnst mjög oft gaman að spjalla um gamla tíð og hvernig hlutir voru þá. Sumir spá mikið í dauðann sérstaklega þegar þeir fara að sjá á eftir vinum og ættingjum í gröfina þá er eins og lifni ljós og þeir átti sig á að jú þetta gæti verið maður sjálfur. Ekki að maður veit aldrei hvort sem maður er gamall eða ungur hvenær maður svífur yfir en eldra fólkið á svo sem frekar von á því heldur en við sem yngri erum.
Ég átti oft svona gæðasamræður við hana mömmu mína og finnst það yndislegt í dag að hafa rætt við hana og hlustað á hana tala um eitthvað sem gerðist þegar hún var ung eða um fólkið sitt og sínar pælingar í þá daga. Ég var líka óhrædd við að spyrja hana um ótrúlegustu hluti sem maður kannski ræðir ekki endilega yfir kaffibolla. En ég held að allir eigi að eiga svona gæðastundir með sínum því maður veit aldrei hvernig dagurinn á morgun verður.
Ég ætla að vona að ég eigi eftir að eiga margar svona gæðasamræður með pabba mínum því þetta eru stundir sem koma til með að ylja manni í hjartanu þegar fram líða stundir.
OFURsjúlli kveður þenkjandi
6.7.2010 | 23:08
Fríið alveg að verða búið
Mikil rigning sem kemur af himnum núna, englarnir s.s. bara hágrátandi alla daga greyin hvað ætli angri þá;) Skemmtum okkur konunglega í rigningunni við mæðgur eftir að ég fjárfesti mér í regn og vindheldu og mátti ekki milli sjá hvor okkar skemmti sér betur ég gamla konan eða litla barnið. Enda vorum við úti í næstum 4 tíma í beit og geri aðrir betur í mígandi rigningu;)
Hún var svo hjá pabba sínum í eina nótt og við Brynja nýttum gærkvöldið í 2ja tíma æfingaakstur sem gekk svona glimrandi vel enda hafði hún fengið góðar leiðbeiningar á króknum hjá Magga afa sínum sem fór með hana og æfði í einu og öðru og svo keyrði hún bíl pabba síns frá króknum sem henni fannst alls ekki leiðinlegt. Hún er orðin mjög örugg að keyra svo nú er bara verið að æfa atriði eins og að taka af stað í brekku og slíkt;) Gaman að því, fórum líka og keyptum blóm á leiðið hennar mömmu og fórum með þau í flottu veðri í gærkvöldi.
Eyddi deginum í að slaka á bara aðallega áður en litla genið mitt kæmi, enda alltaf stuð þegar hún er komin. Sólin fór að glenna sig um það leiti sem hún kom þannig að okkur fannst nú tilvalið að skreppa aðeins í fjöruna og bjuggum okkur bara í regnjakka og fórum af stað. Vorum rétt komnar í fjöruna þegar byrjaði að hellast af himnum ofan og við urðum hundblautar strax, en það var svo gaman og hlýtt þannig að við dunduðum okkur í fjörunni í hálftíma en þá urðum við að flýja þar sem var flóð og fórum og grýttum endurnar á pollinum með brauði, kvikindin voru bara ekkert svöng en brauðið fengu þær engu að síður. Vorum svo bara að chilla og slappa af eftir það.
Ætlum að gera ýmislegt á morgun, hemsækja afa, fara í göngutúr helst út í móa bara og sund enda þarf að hafa ofan af fyrir barninu í sumarfríinu:)
Ég fer að vinna viku fyrr en ég átti að gera þar sem það eru veikindi í vinnunni en verð bara að vinna 8-12 þannig að Brynja getur reddað Kötlu þá vikuna. Síðan tekur mín venjulega vinna við og þá verður Eyþór með hana fimm daga og ég svo helgina svissum alveg um. Verður eflaust einmanalegt hjá mér en gaman hjá þeim aftur á móti sem er flott. Ætla að vera dugleg að hreyfa mig og klára það sem ég á eftir að gera hérna á þeim tíma eins og að mála innréttingu eða restina af henni og stensla á hana eitthvað eða líma, veit ekki alveg. Síðan á ég eftir að mála eina umferð á rammann í kringum gatið í eldhúsinu og láta smíða hillu fyrir framan viftuna veit bara ekki alveg hvernig ég ætla að hafa hana, en þarf bara að láta saga hana fyrir mig þá get ég möndlað henni saman og látið hana upp, er nefnilega ótrúlega klár þegar ég tek mig til.
Annars er ég bara nokkuð sátt við friið mitt þó svo ég hafi ekkert farið nema bara hérna í nánasta nágrenni en maður getur ekki allt þannig að á meðan Katla er svona lítil og Brynja mín að vinna alla daga þá er þetta í lagi. Mér líður ágætlega með þetta allt saman en stefni á bústað í haust eða fyrir jólin á Illugastöðum gæti t.d.tekið jólakortadæmið þar;)
OFURsjúlli kveður í syngjandi sælu
3.7.2010 | 09:01
Mér finnst rigningin góð í hófi;)
Nú rignir mjög kærkominni rigningu hér á Akureyri, allur gróður var orðinn mjög þurr, en mér finnst nú einum of að það eigi að rigna út vikuna dúddamía hefði mátt vera svona minna í einu og jafnara. En þetta er í lagi, ætla að fara á eftir og kaupa mér vind/vatnshelda úlpu og buxur svo ég geti farið að chilla úti með barninu. Keypti handa henni svo gott sett um daginn frá Didriksson og ætla að fá mér þannig líka bara í öðrum lit;)
Katla er byrjuð í sumarfríi s.s. fyrsti dagur í dag og lífinu tekið með stakri ró, núna er verið að skeina dúkkuna og ræða það við hana að það gangi nú ekki að pissa svona á sig haha hún talar af reynslunni litla skinnið, svo stolt að vera hætt með bleyjuna og finnst núna bara svona "litlubarnalegt" að vera með þetta rusl:)
Brynja er að fara að vinna á eftir og fer síðan á Krókinn, var að vona að einhver væri á leið suður sem gæti leyft henni að sitja í en ég verð að bruna líklega með hana allavega á móti Sigga kemur í ljós í dag.
Ég er búin að vera rosalega dugleg að hreyfa mig og eiginlega er mér farið að líða illa ef ég kemst ekki út í göngu eða hlaupa á hverjum degi helst eða einhverja hreyfingu. Hef ekkert lést enda var það ekki tilgangurinn með þessu en ég hef styrkst alveg helling og kemst meira að segja í gallabuxurnar mínar sem ég hef ekki komist í heillllllllengi;) Gaman að því en manni líður líka svo vel andlega við að hreyfa sig.
Höfum verið duglegar mægður að fara í sund sl viku og ætlum að vera rosalega duglegar að fara núna í fríinu hennar Kötlu, Jónasarlaug á Þelamörk er í mestu uppáhaldi en Hrafnagilslaugin er snilld líka, temmilega margir í þeim og aðstaðan flott;) Katla er orðin mjög huguð og fer í kaf og hoppar oní alveg eins og hún hafi aldrei gert annað en hún var frekar vatnshrædd fyrst, enda svo sem ekki alltaf í sundi.
Fórum í Listigarðinn í gær og hann er eins og venjulega algjör paradís, sáum að andapollurinn hjá sundlauginni er líka kominn í fínt stand og endurnar mættar þannig að við erum búnar að safna okkur brauði og ætlum að farar að fóðra brabra kannski í dag. Síðan er stefnan tekin á sveitina og athuga hvort við finnum ekki einhvern sveitabæ til að skoða, hlýtur að vera einhversstaðar einhver sem býður upp á það hér í nágrenninu, annars má lengi chilla í fjörum og leita að skeljum og fleiru skemmtilegu. Kötlu finnst ekki mjög gaman að hanga í bíl þannig að ég ætla ekki að fara með hana í langar ferðir og allrasíst þar sem fjaran hefur jafn mikið aðdráttarafl og einhver fjara langt í burtu. Þannig að við ætlum að njóta fegurðar næsta nágrennis þetta sumarið. En stefni á að fara í bústað á Illugastöðum í haust með vonandi báðar stelpurnar mínar. Einnig er á plani stelpuferð með Sollu vinkonu í bústaðinn hennar í Öxarfirði í haust með börnin okkar og það verður frábært.
Þannig að best að fara að spjalla við litla barnið sem skeinir sem ótt sé og fara svo að troða sér í föt og bíða eftir að regngallabúðin opni, vona bara að þeir eigi enn settið sem ég mátaði í fyrradag það sé ekki allt orðið uppselt;) Þarf alltaf minn tíma til að vega og meta hvort maður hafi efni á, hvort þetta sé akkúrat það sem mig langar í, og fleira í þeim dúr, stekk mjög sjaldan á eitthvað um leið og ég sé það;)
OFURliði kveður í sumarskapi
22.6.2010 | 14:05
Girðum okkur í brók og gerum það;)
Er svo ótrúlega montin af henni Kötlu minni núna, hún gerði samning við Brynju systur sína um að hætta með bleyju og stóð svona 100% við það, bara hætti á mánudaginn fyrir rúmri viku, kom 4 x slys fyrstu 2 dagana en svo bara ekkert, ekki einu sinni á nóttunni vill hún hafa bleyju;) Sýnir að þarna var hún bara algjörlega tilbúin...sparnaður upp á helling fyrir foreldrana;)
Brynjan mín er að vinna á fullu í Gallabuxnabúðinni er meira að segja möguleiki á því að hún sé að fá aðra vinnu líka þannig að allt að gerast kemur í ljós á morgun með það.
Ég er búin að vera með óþægindi í hálsi síðan ég fór í aðgerðina og dreif mig því til doksans sem aðgerðina gerði. Hann tróð einhverju vasaljósi inn í nefið og allaleið ofaní kok (mjög þægilegt) og var ekki lengi að greina vandamálið, var með randaflugu fasta í kokinu bwahahahah nei ég er með svona mikið bakflæði að tunguræturnar eru orðnar svo bólgnar og aftasti hluti tungu einnig. Setti mig á lyf í 6-8 vikur og ætlar að fá mig þá aftur og ef ekki orðið gott þá sendir hann mig í magaspeglun..vissi alveg að ég væri með magabólgur, er alltaf með sviða í maganum og borða endalaust kemur svolítið út eins og ég sé með hungurtilfinningu en ég er búin að vera svona síðan 2006 minnir mig þannig að Ég er bara aumingi alltaf eitthvað af mér, eitt er fixað þá kemur annað í ljós já ég er algjörlega gallað eintak....
Annars er ég kát bara, Katla mín fór á Holtakot í morgun og fer svo til pabba síns og verður til morguns. Ég ætla að slappa af og elda eitthvað sjúklega hollt í kvöld, kjúlla og sætar kartöflur í ofni, jáá nú er maður kominn á sérfæði og má helst ekki drekka kaffi (hmm ekki gott), gos( drekk það aldrei þannig..), safa eða brasaðan mat og ekki súra ávexti...þannig að nú er bara að girða sig í brók og haga sér eins og manneskja má drekka 4-6 bolla af kaffi á dag, miðað við það sem hann sagði minnka um helming sagði hann og þá er þetta nú ekkert;;)
Gott veður hér á Akureyrinni í dag, búin að kíkja á dalinn, ætla að fara að koma Hafliða til og jafnvel að rífa aðeins í járn (svona segja naglarnir sko og þýðir að lyfta lóðum) en þars sem ég er töffari þrátt fyrir þennan aldur þá ríf ég í járn og girði mig í brók...já sæll
OFURsjúlli kveður með pillurnar á kantinum
21.6.2010 | 14:15
Lífið er til þess að lifa því á þann hátt sem maður sjálfur vill ekki eins og aðrir vilja....
Þvílík blíða hér á Norðurlandinu undanfarnar vikur. Gæti ekki verið betra að vera í sumarfríi í svona veðri. Er samt eiginlega fegin að það er ekki sól í dag en samt mikill hiti, stundum gott þegar sólin felur sig, er soddan mörgæs á köflum.
Frábær dagur í gær hjá okkur mæðgum, fórum út kl 9 í göngutúr og fórum svo heim og sóttum okkur smá nesti og fórum upp á rólóinn við Árholt en þar var svo mikið af krossköngulóm út um allt þannig að við færðum okkur yfir á Glerárskólavöllinn og vorum þar góða stund, frænkur komu og voru með okkur í smá stund í þvílíkri steik. Fórum svo í annan göngutúr og svo heim til að fá okkur að borða. Borðuðum úti á palli og skelltum okkur svo í það að kríta og skoða nánasta umhverfi. Köstuðum í eina skúffuköku og pabbi, Hildur og dætur kíktu aðeins við. Fórum svo í ísleiðangur og fórum niður á Leirupoll að skoða endurnar og kasta steinum og labba í skóginum, týna blóm og bara chilla. Þegar heim var komið fór Katla í balabað úti á palli og var þar í næstum klukkutíma í þvílíkum hita. Síðan bara fengum við okkur að borða og litla barnið var svo þreytt en sofnaði samt ekki fyrr en um kl 9. Þetta var svo frábær dagur í alla staði fyrir utan að litla barnið brann smá og kvartaði um sviða en það lagaðist;)
Brynja fór suður á laugardagsmorguninn að keppa. Mér til mikillar gleði þá vaknaði ég þann morgun kl 05 við það að tveir kallar um sjötugt voru að ræða ýmis misgáfuleg mál fyrir utan herbergisgluggann minn. Hreykja sér af ýmsu en hálfvælandi yfir öðru, örkuðu svo í burtu að því að ég hélt. Skutlaði svo Brynju niður í Hamar með draslið fyrst ég var á annað borð vöknuð og þegar ég kom tilbaka, liggur ekki annar sjarmörinn dauður við hliðina á húsinu, í hlýrabol, með kábojhatt og hraut mjög svo hátt. Ég fór inn og kíkti á hitamælinn og þar sem var um 17 stiga hiti ákvað ég að leyfa uglunni að sofa bara. Dreif mig svo upp í Glerárdal og tölti mér þar inneftir í eðal mollu. Síðan kom Katla mín heim 2 dögum fyrr en áætlað var þannig að við grilluðum bara pylsur um kvöldið með frænkum og höfðu það svo notalegt bara kósi kvöld
Lífið er því eins og það best verður á kosið, stefni á að fara hringinn í glerárdal á morgun, spurning að maður verði ekki hálfdauður eftir það en so þetta er svo mikil snilld. Annars er Hafliði líka verulega misnotaður greyið og bara gott með það.
OFURsjúlli kveður glaður með sig og sínar;)