14.7.2011 | 22:50
Kjaftstopp í marga mánuði óvenjulegt;)
Dúllamía alveg búin að gleyma að skrifa hérna, ekki að ég haldi að margir lesi en líklega einhverjir þó;)
Sumarið kom um leið og ég fór í frí, ekki svo sem við öðru að búast þar sem ég er sólarmegin í lífinu;) Katla mín fór í frí 20 júní og er til 18 júlí þannig að hennar frí er langt komið. Ég fór í frí 4 júlí og er til 8 ágúst.
Ætla ekki að gera mikið í fríinu þar sem það kostar augun úr að hreyfa sig og maður má þakka fyrir að geta sinnt þessu nauðsynlega, eins og að kaupa mat og eiga fyrir bensíni, þetta virðist lítið ætla að skána en þýðir ekkert fyrir mig einhverja litla Ernu úti á landi að rífast yfir því, hlutirnir breytast ekkert við það. En ætla þó að skella mér í göngu með honum brósa mínum á föstudaginn þarnæsta og taka svo eitt gott mærudagsdjamm á laugardeginum ef ég verð ekki gengin upp að öxlum, ef ég þekki bróðir minn rétt þá verður þetta ekkert 2-3 tíma ganga, ég geri ráð fyrir minnst 8 tímum sem er bara gaman;) Katla verður hjá pabba sínum og Brynja mín verður í Reykjavík að keppa þannig að ég læt mig bara hverfa á gömlu hú enda ekki oft sem ég nenni að fara þangað.
Síðan ætlum við Brynja að fara í smá mæðgnaferð til Reykjavíkur og versla aðeins í byrjun ágúst, vona að það gangi upp, verst að við erum báðar óttalegir nördar þegar að umferðinni í borginni kemur en það hlýtur að reddast eins og annað. Hittist yfirleitt á að ef ég hef tíma að gera eitthvað þá er hún upptekin og svo öfugt þannig að ekki oft sem við tvær getum gert eitthvað.
Við Katla erum búnar að vera duglegar að hendast í sund, fórum t.d. á Þelamörk í morgun og vorum í rúma 2 tíma komum tilbaka, brúnar og sælar og þreytta og mamman peningaveskislaus þannig að við þurfum auðvitað að bruna þangað aftur og sækja veskið, litla stýrið var ekki alveg sátt því við vorum að fara að fá okkur pylsu þegar veskishvarfið uppgötvaðist og við verulega svangar;) Breytir hana engu ennþá þó maður geri ekkert stórt í sumarfríi er hæstánægð með nestisferð út í móa eða bara í sund;)
Brynja mín hefur verið að kljást við meiðsli í hnjám og kom loks í ljós að hún var með annan fótinn of stuttan og sin í öðru hnénu farin að þykkna og vöðvar við hnéskeljar eitthvað ekki í góðu ástandi, þannig að ég dreif hana í göngugreiningu þar sem hún fékk ný innlegg en á að nota gömlu einnig (hann breytti þeim bara aðeins) og svo fékk hún hælahækkanir í nokkra skó. Síðan tekur bara við sjúkraþjálfun og vonandi lagast þetta svo hún geti haldið áfram að gera góða hluti í boltanum.
Bættist við gæludýr heimilisins þar sem hunangsflugur hafa komið sér fyrir undir pallinum okkar og gaman að fylgjast með þeim koma með hunang á öllum skönkum og troða sér inn undir pallinn og heyra svo suðið í þeim meðan þær losa sig við fenginn, mjög vinnusamar. Er samt ekki eins kát með þær undanfarið þar sem þær eru farnar að trufla okkur sólþyrstu mæðgurnar á pallinum, hugsa að ég neyðist til að eitra fyrir þeim ef þær halda þessu áfram greyin, eins er ég svo heppin að hér í mikilli nálægð er líklega geitungabú og þeir eru farnir að gera sig býsna heimakomna, veiddi einn vænan í háf og myrti hann með gleði, þoli þá ekki. En mikið gerði ég góð kaup í bleika háfnum hennar Kötlu þó svo að upphaflega hafi hann verið keyptur til að veiða í síli en sú veiði gafst ekki vel;)
Jæja best að fara að kasta sér í bælið þar sem hún Katla mín vaknar líklega snemma eins og venjulega.
Eigið góða daga gott fólk þar til ég kem næst
Yfirliði kveður sæll og sáttur;)
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Mikið er gott að heyra eitthvað frá þér aftur Erna mín svona rétt svo ég viti hvernig þið hafið það Ég er alltof löt við að taka upp símann og hringja í hana Brynju mína til að fá fréttir. Endilega skrifaðu annaðslagið kv Unnur.
unnur (IP-tala skráð) 15.7.2011 kl. 22:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.