14.7.2011 | 22:50
Kjaftstopp í marga mánuði óvenjulegt;)
Dúllamía alveg búin að gleyma að skrifa hérna, ekki að ég haldi að margir lesi en líklega einhverjir þó;)
Sumarið kom um leið og ég fór í frí, ekki svo sem við öðru að búast þar sem ég er sólarmegin í lífinu;) Katla mín fór í frí 20 júní og er til 18 júlí þannig að hennar frí er langt komið. Ég fór í frí 4 júlí og er til 8 ágúst.
Ætla ekki að gera mikið í fríinu þar sem það kostar augun úr að hreyfa sig og maður má þakka fyrir að geta sinnt þessu nauðsynlega, eins og að kaupa mat og eiga fyrir bensíni, þetta virðist lítið ætla að skána en þýðir ekkert fyrir mig einhverja litla Ernu úti á landi að rífast yfir því, hlutirnir breytast ekkert við það. En ætla þó að skella mér í göngu með honum brósa mínum á föstudaginn þarnæsta og taka svo eitt gott mærudagsdjamm á laugardeginum ef ég verð ekki gengin upp að öxlum, ef ég þekki bróðir minn rétt þá verður þetta ekkert 2-3 tíma ganga, ég geri ráð fyrir minnst 8 tímum sem er bara gaman;) Katla verður hjá pabba sínum og Brynja mín verður í Reykjavík að keppa þannig að ég læt mig bara hverfa á gömlu hú enda ekki oft sem ég nenni að fara þangað.
Síðan ætlum við Brynja að fara í smá mæðgnaferð til Reykjavíkur og versla aðeins í byrjun ágúst, vona að það gangi upp, verst að við erum báðar óttalegir nördar þegar að umferðinni í borginni kemur en það hlýtur að reddast eins og annað. Hittist yfirleitt á að ef ég hef tíma að gera eitthvað þá er hún upptekin og svo öfugt þannig að ekki oft sem við tvær getum gert eitthvað.
Við Katla erum búnar að vera duglegar að hendast í sund, fórum t.d. á Þelamörk í morgun og vorum í rúma 2 tíma komum tilbaka, brúnar og sælar og þreytta og mamman peningaveskislaus þannig að við þurfum auðvitað að bruna þangað aftur og sækja veskið, litla stýrið var ekki alveg sátt því við vorum að fara að fá okkur pylsu þegar veskishvarfið uppgötvaðist og við verulega svangar;) Breytir hana engu ennþá þó maður geri ekkert stórt í sumarfríi er hæstánægð með nestisferð út í móa eða bara í sund;)
Brynja mín hefur verið að kljást við meiðsli í hnjám og kom loks í ljós að hún var með annan fótinn of stuttan og sin í öðru hnénu farin að þykkna og vöðvar við hnéskeljar eitthvað ekki í góðu ástandi, þannig að ég dreif hana í göngugreiningu þar sem hún fékk ný innlegg en á að nota gömlu einnig (hann breytti þeim bara aðeins) og svo fékk hún hælahækkanir í nokkra skó. Síðan tekur bara við sjúkraþjálfun og vonandi lagast þetta svo hún geti haldið áfram að gera góða hluti í boltanum.
Bættist við gæludýr heimilisins þar sem hunangsflugur hafa komið sér fyrir undir pallinum okkar og gaman að fylgjast með þeim koma með hunang á öllum skönkum og troða sér inn undir pallinn og heyra svo suðið í þeim meðan þær losa sig við fenginn, mjög vinnusamar. Er samt ekki eins kát með þær undanfarið þar sem þær eru farnar að trufla okkur sólþyrstu mæðgurnar á pallinum, hugsa að ég neyðist til að eitra fyrir þeim ef þær halda þessu áfram greyin, eins er ég svo heppin að hér í mikilli nálægð er líklega geitungabú og þeir eru farnir að gera sig býsna heimakomna, veiddi einn vænan í háf og myrti hann með gleði, þoli þá ekki. En mikið gerði ég góð kaup í bleika háfnum hennar Kötlu þó svo að upphaflega hafi hann verið keyptur til að veiða í síli en sú veiði gafst ekki vel;)
Jæja best að fara að kasta sér í bælið þar sem hún Katla mín vaknar líklega snemma eins og venjulega.
Eigið góða daga gott fólk þar til ég kem næst
Yfirliði kveður sæll og sáttur;)
30.4.2011 | 10:17
Sumarið er tíminn;)
Það er bara ekki hægt að neita því að um leið og fer að vora þá lifnar yfir manni, maður verður orkumeiri, glaðari og svo ég tali nú ekki um fallegri því það fylgir nú bara því að vera glaður og orkumeiri;) Eini gallinn við vorið í mínum huga eru helvítis pöddurnar, þoli ekki köngulær og randaflugur og við ræðum ekki geitungana. Ég var nú svo einstaklega heppin að fá eina drottningu inn til mín í gær en sökum snarræðis kattarins þá rauk hún út aftur.
Klukkan ekki nema rúmlega 10 og enn er fólk að skemmta sér hérna í blokkinni á bak við mig, gaman að því, enda vekur sumarið mann hreinlega til lífsins;)
Sumarfrí staðfest 4júlí - 8 ágúst en síðasti vinnudagur er 1 júlí íhahhahahhaha, djöss sem maður skal vera duglegur að njóta. Efast um að mikið verfði farið sökum bensínverðs og dýrtíðar á íslandi en þá er að njóta þess sem okkar fallega sýsla býr yfir eins og sundlauganna, heimagerða íssins, útivistarsvæði, fjörurnar og fleira og fleira;) Ákveðin samt í því að eyða einum degi í Ásbyrgi í sumar og jafnvel í Hljóðaklettum í minni fallegu heimabyggð.
Leikskólinn hjá Kötlu lokar 15 júní -20 júlí eða öfugt man það ekki alveg en hún verður hjá pabba sínum eitthvað af þeim tíma þar til ég fer í frí og svo bara höfum við þetta frjálslegt svona, spilum þetta eftir eyranu eins og sagt er.
Þarf að fara að kaupa mér hlaupaskó í dag og þeir sem ég þarf, innanfótarstyrkta kosta 29 þús er þetta eðlilegt, þegar ég keypti mér síðast hlaupaskó fyrir 3 árum kostuðu þeir nú töluvert minna eða helmingi því sem næst...
Svo er alltaf verið að hvetja fólk til hreyfingar og að borða hollt og svona en hvernig í ósköpunum á það að vera hægt þegar allt sem tengist hreyfingu og hollustu hefur hækkað svona rosalega en svo hefur sælgæti ekki hækkað nærri eins mikið enda ekki talið til nauðsynjavöru og þá hækkar það ekki. Eins og kom fram í einhverri könnun þá hefur neysla fólks á kexi dregist töluvert saman en neysla á sælgæti staðið í stað eða jafnvel aukist því það er ódýrara!!!!
En svona er nú íslandi í dag og mér finnst ísland alltaf gott en er nú komin á fullt í að æfa mig í norskunni, er aðallega núna að kíkja á málfræðina, skil norskuna þegar ég les hana og að mestu þegar ég hlusta á hana sérstaklega ef ég er með textann fyrir framan mig en ég er ekki eins góð að segja heila setningu upp úr sjálfri mér;) En það kemur með tíð og tíma. Set núna sem langtímamarkmið að fara út í eins og 2 vikur af sumarfríinu mínu næsta sumar og vinna, aðallega til að sjá eitthvað nýtt og prófa eitthvað nýtt, gott að breyta ögn til svo maður staðni ekki s.s. víkka út sjóndeildarhringinn. Er svo lukkuleg að frændi minn er með atvinnumiðlun í Norge fyrir hjúkrunarfr. og sjúkraliða og hann er búinn að lofa mér VIP meðferð hvað sem svo felst í henni;)
Well jentan ætlar að drullast í einhver föt og leita sér að skóm
Yfirliði kveður í fallegu vorveðri ;)
16.4.2011 | 10:43
Já því ekki:)
Lífið er ljúft, seisei já, fallegt veður, nýbúin að kúra undir teppi og horfa á fallegustu mynd allra tíma Notebook, var að horfa á hana í 11 skipti held ég og mér finnst hún alltaf jafn góð. Hausinn fullur af kvefi en hlýtur að fara fyrir rest, getur ekki verið gaman að hanga í hausnum á mér;)
Andrea babydoc hringdi í gær, prufur komu fínt út nema smá kreatín hækkun í þvagi hjá litla barninu, verður fylgst með því með annarri þvagprufu eftir tvær vikur, en ef hún versnar eigum við að koma með hana, og halda vel að henni vökva..verður fín í næstu prufu vonandi;) Er hjá pabba sínum núna í dosemdaryfirlæti ef ég þekki þau feðginin rétt:)
Ætla að fara að pilla mér í föt og reyna að fá mér einhverja hreyfingu í einhverju formi, veit ekki hvort ég á að nenna að hlaupa vegna kvefsins en kannski hjóla eða labba, verð að fara að hreyfa mig áður en allur skrokkurinn hrynur, ekki langt í það ef ekkert er að gert, langar líka að fara og þvo pall og þvo glugga og eitthvað svona að duddast sé til hvað ég verð iðin;) Spurning á að byrja á því að vaska upp, farin að þrá uppþvottavél, mikið er þetta leiðinlegt verk;)
Skreyttum aðeins í kringum okkur mæðgur í gær, settum páskakerti og styttur og dúka og dúllerí, bara gaman að því, á svo mikið páskaskraut að það er farið að slarka í jólaskrautið;) Ákvað að vera ekki með lifandi greinar í ár þar sem ég fékk svo mikinn feta inn til mín í fyrra í kjölfar greinanna að þær litu út fyrir að vera lifandi af iði;)
Mikil umræða á meðal sjúkraliða á mínum vinnustað að drífa sig til Noregs og er ein að fara, mér finnst þetta hrikalega spennandi og ætla að hafa þetta að markmiði að geta farið til noregs og unnið í 2 vikur eftir einhverja mánuði og því er ég byrjuð að stúdera norskuna sem er alls ekki erfitt að skilja en erfiðara að tala;) En norðmenn eru nokkuð þolinmæðir skilst mér hvað málakunnáttu okkar varðar þannig að líklega þarf maður ekki að hafa áhyggjur;)
Þvi segi ég bara
Ha en god dag og smil
Paramedic djellan er farin over and ot:)
8.4.2011 | 09:59
Lífið og Icesave hjá Liðanum:)
Árið byrjar svona stórvel hjá okkur mæðgum, fyrst ég í endalausum veikindum sem sá loks fyrir endann á. Þá fær litla barnið flensuna og búin að vera með hita í 5 daga og mikið ofaní sér og vesen. Fórum til Andreu barnalæknis í gær og hún tók strok úr klobbanum hjá Kötlu til að útiloka strepthokokka þar, Katla vildi ekki leyfa henni að hlusta sig né skoða hálsinn þannig að það kemur í ljós bara en hún er með surgandi andardrátt og hóstar mikið, vonandi nær hún þessu upp. Hún fékk nettan hitakrampa í fyrrinótt en þá var hún komin með 40,2 gráður og meðvitund lítil sem engin, hef ekki séð hana svona lasna greyið litla, þorði ekki að sofna fyrr en ég sá að hitinn fór lækkandi. Nóttin í nótt var 4ra tíma svefn en hún fann svo til einhversstaðar en vildi ekki segja það en það lagaðist loks fyrir rest. Tókum svo þvagprufu í morgun og pabbi hennar fór með hana. En enn er hún ómögleg með minni hita samt. Úff vona svo að þetta fari að lagast...
Icesave kosning á morgun og enginn vafi hjá liðanum hvar krossinn fer, segi nei enda illa menntuð og of ung til að kjósa rétt miðað við það sem maður hefur heyrt. Búin að fá þvílíkar blommeringar vegna þess að ég ætla að segja Nei að mér finnst þetta með ólíkindum. Afhverju hef ég ekki gáfurnar til að kjósa rétt þó svo að ég sé ekki með háskólapróf og bara 38 ára? Og afhverju má ég ekki bara segja Nei án þess að einhver Jón úti í bæ sé að blommera það. Er ekki enn örugglega lýðræði á klakanum þó svo að einhverjir vilji auðvitað gera landið að Kúburíki og stefnir allt í það og klárlega ef samningar verða samþykktir þá hætti ég að skrá mig með ríkisfang á íslandi og skrifa bara Kúba. Já svona er þetta allir hafa sína skoðun og það merkilega er að allir hafa rétt á henni ennþá allavega.
Ég ætla að láta þetta nægja að sinni og fara að horfa á Emil og grísinn með henni Kötlu sem hreinlega elskar Emil enda blundar í henni lítill Emil ójá
Eigið góða helgi þið sem rennið yfir þetta rugl í mér
Yfirliði kveður over and out
27.3.2011 | 22:26
Dagur í lífi liðans....
Hringt í mig í gær varðandi segulómunina og ég er s.s. ekki deyjandi eins og ég var klárlega farin að halda;) Hún kom vel út þannig að nú er allavega búið að útiloka að þetta sé nokkuð arfaslæmt eins og maður var farinn að hallast að. Er með eitthvað þarna í móðurlífinu sem á að taka með tíð og tíma en ekkert slæmt;) Verkirnir eru s.s. óútskýrðir nema að mjólkin hafi valdið þessu, allavega hef ég ekki fundið þessa verki svona slæma eftir að ég hætti að snerta það sem er mjólk;)
Katla búin að vera í slíku stuði alla helgina að það er búið að vera erfitt fyrir mig öldunginn að hafa við henni. Fórum í göngutúr í gær í kerrunni og rökræddum fram og aftur að nú væri kominn tími á að nota fæturnar og hætta þessu kerrurölti, litla ekki sátt við það enda afburðaþægilegt að biðja um göngutúr og slaka bara sjálf á;) Skruppum til pabba í kaffi og hún er orðin svo lagin við að láta hann skoppa í kringum sig að það hálfa væri nóg. Síðan í dag tókum við snjókast á þetta og skemmtum okkur konunglega við að finna stað fyrir blómabeð og svona og fundum meira að segja kónguló á lífi helv...eini gallinn við hlýindin;)
Katla fór í 4ra ára skoðun og kom ljómandi vel út úr því, nema hún var svolítið feimin við þessa konu sem tók hana í prófið en gekk vel samt. Fór líka í foreldraviðtal á Kotinu þar sem hún kom rosalega vel út í öllu nema hún er svolíitð óörugg á köflum sem er líka alveg eðlilegt, aðallega við aðstæður þar sem foreldrar koma og allir eru s.s. feimin bara eins og mamma hennar var, veit ekki hvort pabbinn hefur verið feiminn á sínum yngri árum.
Prufuðum aðeins Hafliða í dag og ákváðum að nú færum við á hann reglulega alltaf til skiptis því henni finnst það mjög gaman, hef ekkert getað hlaupið fyrir þessum verk en þar sem hann er að verða liðin tíð þá verður maður víst að drullast til að nota græjuna aftur;) Enda ekki snert hann í marga mánuði og bara verð að drífa mig af stað. Þarf reyndar að fjárfesta mér í hlaupaskóm upp á aðeins tæp 30 þús þar sem ég þarf innanstyrkta en ætla að kaupa mér þá í maí hlýt að verða rík þá;)
Best að fara að skríða upp í hjá litla barninu, er að lesa ísfólkið og það er svo spennandi að ég tek það framyfir gott sjónvarpsefni og horfi eiginlega ekki á tv á kvöldin.
Námskeiðstörn framundan, búin með eitt í fjarnámi og er svo að fara á námskeið á FSA á miðvikudag og fimmtudag um Stoðdeildir og svo 14 og 15 apríl um Stoðkerfið, ætla svo á eitthvað eitt enn fyrir sumarið. Búin að fá að vita hvernær ég fer í sumarfí og byrja ég 1 júlí og er til 12 ágúst íha bara snilld nema eitthvað breytist. Næ þá 2 vikum með Kötlu í fríi og pabbi hennar 2 vikum og svo fær hún aukafrí svona eftir því hvað mömmunni hentar. Efast um að maður fari neitt í sumar þar sem bensínið er hrikalega dýrt og allt hefur hækkað, bara vera dugleg að fara í sund og pikknikk hingað og þangað.
Best að afara að lesa
Yfirliði kveður.....
23.3.2011 | 22:25
Lífið hjá liðanum:)
Litla Katla mín orðin 4ra ára, finnst svo ótrúlega stutt síðan að ég hélt ég væri að deyja við að fæða hana;) Ekki sjálfgefið að maður geti eignast börn en ég verið ótrúlega heppin að fá þann heiður að fá að fæða tvær dásamlegar stelpur.
Vorum með smá afmælispartý í gær og henni fannst svo gaman og fékk marga pakka og var enn að taka upp pakka í dag. Fékk 3 skokka, 1 leggings, kápu, skó, 5000 kr, litatösku, trompet, ponyhest, prinsessuregnhlíf, dúkkur, helling af nammi (gott fyrir mömmuna), og margt fleira. Var þreytt en afskaplega glöð þegar hún fór að sofa í gærkvöldi og stundi upp í svefnrofunum "mamma á ég aftur afmæli á morgun":) Hún bauð Sollu og dætrum, afa Hauk og Móu og dætrum og pabba sínum í partýið og var það bara algjörlega temmilegt í svona 4ra ára afmæli:)
Kom svo í ljós að hún var nú komin með njálg þannig að nú er lyf á alla familiuna, verið að þvo alla bangsa og fer í á morgun að sótthreinsa alla hurðarhúna og slíkt, ætla að koma í veg fyrir að þetta komi aftur djöss ógeð.
Komst að því að njálgur getur smitast með svífandi njálgseggjum í andrúmsloftinu, var alltaf viss um að þetta kæmi bara úr kattaskít eða slíku en það er svona algjör misskilningur og hananú. Annað sem mér finnst mjög merkilegt er að þrátt fyrir hvað þetta er algengt að börn fái þetta á leiksskólaaldri (ef miðað er við að læknar skrifi út lyf og lausasölulyf) þá er þetta afskaplega sjaldan tilkynnt leikskólum. Spurning hvort að foreldrum finnist þetta skammarlegt!!!! Það verður að tilkynna svona svo hægt sé að bregðast við og aðrir foreldrar geti fylgst með sínum börnum. Þetta getur verið undir nöglum á börnum. Allavega ætla ég að vera mjög vakandi núna fyrir þessu ógeði. Hef kannski verið frekar kærulaus veit ekki.
Brynja mín er flestar helgar í borginni núna að keppa, er að fara þriðju helgina í röð líklega núna um helgina en svo er frí fram til 21 apríl en þá loksins er heimaleikur jibbí jei og ég í fríi og get farið og gónt á fótbolta tóm gleði;) Ætla sko að vera dugleg í sumar að fara og glápa þetta er svo gaman. Katla er ákveðin í því að hún sé að fara að æfa fótbolta og í tilefni þess gaf Brynja henni Þórsarastuttbuxur um daginn sem hún er svo mikið krútt í, dundar sér líka við að láta mömmuna kæla reglulega á sér fæturnar með klaka ef hún dettur bara afþví að Brynja þarf stundum að gera það þegar hún meiðir sig;) Snillngur.
Ekkert enn komið úr segulómun hjá mér en ég bíð og vona að ég fari að heyra að ég sé bara ímyndunarveik sem ég sjálfsagt er. Kom þó í ljós að ég er með mjólkuróþol og hef skánað mikið eftir að ég sleppti mjólkinni. Vissi að ég var með eitthvað fæðuóþol og var búin að prófa flest nema að sleppa mjólk:)
Fórum saman heimahjúkrun að djamma fyrir löngu síðan og það var ævintýranlega gaman, var hreinlega búin að gleyma hvað þetta getur verið gaman í góðra vina hópi. Fórum á Götubarinn, og á teknóstuð á Pósthúsbarnum og loks á Vélsmiðjuna og þegar maður hafði komist í þann gír að dansa þá var bara dansað algjörlega út í eitt;) Skreið heim kl 05.00 alein þrátt fyrir miklar og skemmtilegar tilraunir hjá Svabbus yfirsjúlla;) *fliss*
En best að fara að hengja upp á eyrunum eina 10 bangsa sem eru sko klárlega blautir á bak við eyrun;)
YFIRliði kveðiur sáttur
2.3.2011 | 19:44
Dagurinn og vegurinn:)
Skringlilegt veður hér á klakanum okkar núna, þvílíkar sviptingar fram og tilbaka alltaf jahérna;)
Er að dunda mér við að prófa uppskrift frá Jóa Fel af vatnsdeigsbollum og sýnist mér ætla að takast þetta enda alger umbauppskrift sýnist mér, mér hefur bara aldrei gengið að baka almennilegar bollur. Hugsa að unglingurinn minn verði gríðarlega glaður þegar hún dettur heim af æfingu. Katla mín er farin til pabba síns og ætlar að fara með honum í sumarbústað á Blönduósi um helgina ásamt ömmu sinni og afa verður svo gaman hjá þeim ef ég þekki þau rétt:)
Ætlaði að baka líka hrökkbrauð en ég held svei mér ég nenni því bara ekki í kvöld en geri það bara á morgun í staðinn;)
Fór í ristilspeglun í dag eftir viðbjóðslegan undirbúning en það kom svo sem ekki mikið út úr speglun nema að ég er með ristilpoka og get komið í veg fyrir nokkur vandamál út frá því með því að vera vakandi í matarræði. En eitthvað sást í sneiðmynd af móðurlífi því ég á að fara í Segulómun sagði Nick mér en Ragnheiður hefur samband á næstu dögum og svo í framhaldi af því þarf ég líklega í kviðarholsspeglun og Amen bara, vona að þetta sé bara eitthvað sem hægt sé að laga...
Hef ekki haft mikla matarlyst í dag þrátt fyrir að hafa ekkert borðað en ef ég þekki mig rétt þá breytist þá nú fljótt haha, langar svo að geta farið að hreyfa mig að ég er að klikkast, get það bara ekki þar sem ég fæ einhvern verk innan um mig um leið og ég fer að hlaupa en ég ætla nú samt að fara að hreyfa mig og labba bara rólega, annars klikkar skrokkurinn á mér:)
Annars er lífið nokkuð gott miðað við að það er allt að fara til helvítis í þjóðfélaginu en það er reyndar ekki alveg nýtt. Vona að allir fari og nýti sér sinn kosningarrétt varðandi Icesave það ætla ég sko að gera ekki spurning.
YFIRliði kveður
25.2.2011 | 08:37
Helgarfrí
Kosturinn við að vinna um helgar er að þá fær maður 4ra daga helgarfrí helgina á eftir og Katlan mín græðir líka og er líka í fríi. Hún er að fara í fyrstu ferðina sína til tannlæknis í dag og er spennt, ekki eins og mamma hennar sem er alltaf með kvíðahnút í maganum yfir því að fara og ekki bara afþví að henni er illa við tannlækna heldur verður maður öreigi eftir slíka heimsókn.
Síðan er sú stutta að syngja í tónleikum á Hofi á morgun með fiðluhópnum sínum og verður það mikið gaman að sjá hvernig þau standa sig, ekki gengið svo vel á æfingum hahaha en svona er þetta, erfitt að halda einbeitningu á þessum aldri.
Ekkert heyrt enn frá Ragnheiði kvensj. er reyndar í fríi til 1 mars en hún ætlaði að reyna að hafa samband um leið og hún fengi niðurstöðurnar úr CT bíð spennt eftir þeim. Fer svo í ristilsspeglun a miðvikudag þannig að ég er komin í frí fram á fimmtudag.
Síðan verður þetta allt gleðilegra því við þessar mögnuðu konur úr heimahjúkrun ætlum að fara að skemmta okkur saman, bara gaman að því;)
Læt nægja að sinni
Yfirliði kveður
14.2.2011 | 19:06
Endalaus veikindi úff ekki byrjar árið vel...
Komin með nóg af læknum og þeir eflaust af mér. Búin að vera hjá Nick sem sendir mig í ristilspeglun 2 mars, hann sendi mig líka til Ragnheiðar kvensjúkdóma sem náði að framkalla hjá mér verulega verki og sendir mig í CT í byrjun næstu viku og ekki nóg með það þá tókst mér að fá sýkingu í fingur og þurfti að fá sýklalyf til að vinna bug á þeirri óværu, var búin að reyna að láta þetta bara lagast en það gekk bara ekki. Vona svo að þessu fari að linna, og að niðurstaða komi í það afhverju ég fæ þessa verki.
Brynja mín er með lausan liðþófa í kjálka eftir íþróttasamstuð og búin að vera að reyna að þjálfa það upp í heilt ár, en svo versnaði það aftur og núna þarf hún einhvern góm og vesen til að reyna að laga það og kostar það tæp 100 þús, reyndar greiðir Sjúkratryggingar eitthvað smotterí tilbaka en svona er þetta bara.
Katla mín er sú eina sem er uppistandandi og ekkert að, og er það svo gott. Alltaf hress og kát þessi elska, finnur samt um leið og mamma hennar verður eitthvað ómögleg og mætt með læknatöskuna og farin að reyna að koma kellu í stand, þetta er óþolandi ástand ég meina það. Mér líður eins og aumingja að geta ekki farið og hreyft og mig og svona en eins og ég segi vona bara innilega að það fari að komast niðurstaða í málið og þeir finni hvað þetta er og geti læknað það. MAður er alltaf pínu hræddur þegar illa gengur að finna út úr hlutunum og gerir bara ráð fyrir því versta þó svo engin ástæða sé kannski til en þannig er það bara.
Er að vinna dobblað um næstu helgi og svo er ég hætt að dobbla mig og verð bara á 6ju hverri helgi á kvöldvöktum og svo mínum dagvöktum og verður það snilld því ég er alveg sprungin á því að vera tvöfalt.
Vorum með smá þorrahlaðborð hérna við systur og pabbi og dæturnar. Smá er kannski ekki rétta orðið því það var eins og við yrðum 15 en ekki 3 fullorðin svo mikill var maturinn. En við deildum þessu bara niður og er ég búin að éta hrísgrjónagraut og sviðasultu og punga og slátur og síld og rúgbrauð og og og í marga daga;) En þetta er svo gott. litlu stelpurnar borðuðu bara hangikjöt að mestu fannst hitt eitthvað lítið spennandi, Brynjan míin var reyndar að vinna í Hamri en fékk sér þegar hún kom heim.
Ætla að fara að horfa á Latabæ með litla geninu mínu og knúsa hana í tætlur, sú stóra er að búa sig á æfingu þannig að við verðum bara tvær hér heima
Yfirliði kveður ekkert mjög kátur
6.2.2011 | 00:28
Lífið er gott að flestu leyti;)
Fallegt veður í kvöld hér á Eyrinni, fengum okkur göngutúr við hinar fjórar fræknu s.s., Hildur, ég, Rósa og Solla og það var bara frábært, norðurljósin og stjörnubjart og 5 stiga frost. Gaman að því og verður vonandi framhald á. Næst er að finna tíma fyrir systrakvöld.
Brynja mín fékk að halda hérna partý með 6 vinkonum, bara gaman hjá þeim heyrðist mér, en mamman var reyndar um hálftíma að skúra gólf og vaska upp á eftir, var maður ekki bara svona sjálfur, minnir það;) Brynjan mín er nú yfirleitt málglöð og það get ég sagt að ekki minnkar það við að fá sér aðeins í glas;) Fyndið...
Frábær útsala sem ég lenti á í Piers þvílík útsala svona eiga þær að vera, 60% afsláttur og svo 20% aukaafsláttur síðustu dagana, fór og keypti mér 2 flotta púða, room spray og handáburð fyrir 2000 kr bara kúl. Ætla aftur á morgun bara til að skoða. Keypti mér líka skó í leiðinni í Focus enda ekki vanþörf á þar sem allir voru orðnir ónýtir þannig að núna á ég geggjað góða skó, er að reyna að eyða inneigninni sem pabbi gamli gaf mér í jólagjöf karlinn og á enn eftir þrátt fyrir Focus og Piers;)
Núna fara námskeiðin að byrja hjá mér, fyrsta í febrúar svo tvö í mars og svo eitt í apríl og þá næ ég smá launahækkun sem ekki veitir af á meðan allt hækkar, mjólkin hækkar, bensin hækkar og bara hreinlega allt, fer að skeina mig bráðum á greinum bara.
Katla litla er hjá pabba sínum og fór Brynja í dag og hann var að taka myndir af þeim saman en ég á enga svona virkilega góða af þeim saman, ætla svo að henda á striga eins og einni af þeim og helst henni Rakel minni líka, gaman að hafa myndir af fallegu börnunum upp um alla veggi;)
Best að fara að sofa þar sem ég vakna alltaf eldsnemma, þó svo að ég efist um að ég nái að sofna fyrr en ég heyri unglinginn staulast inn til sín. Ungamamma er svona alltaf held ég, man að mamma sagðist aldrei hafa getað sofnað almennilega fyrr en hún heyrði að ég var komin heim, aumingja hún því hún hefur átt þá margar andvökunætur mín vegna, ef ég aðeins hefði vitað það.
OFURliði kveður...